Opna sitt ellefta hótel

Fyrstu gestirnir hafa nú innritað sig inn á hið fjögurra stjörnu Exeter hótel við Tryggvagötu.

Mynd: Keahótelin

Við gömlu höfnina stendur nú nýjasta hótel borgarinnar og ber það nafnið Exeter Hotel. Um er að ræða 106 herbergja hótel þar sem finna má allt frá tveggja manna herbergju og upp í svítur. Sú stærsta er 51 fermetri að stærð og býður upp á útsýni yfir hafnarsvæðið og Esjuna. Á jarðhæð hótelsins er veitingastaðurinn Le Kock sem þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt götufæði (Streetfood) sem borið er fram á óhefðbundin hátt. Hótelbarinn nefnist Tail bar og mun vera sá fyrsti á landinu sem tekur í notkun svokallaðar „bottoms up“ bjórdælur. Bakaríið Deig, sem staðsett er við innganginn, býður gestum og gangandi nýbakað brauð alla morgna.

Exeter hótelið er ellefti gististaðurinn sem Keahótelin reka og í tilkynningu segist Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, vera afar ánægður með nýja hótelið „Þetta hefur verið virkilega spennandi verkefni frá fyrsta degi og gaman að taka þátt í því. Við skynjum mikinn áhuga á hótelinu og höfum fengið fyrirspurnir varðandi þá nýstárlegu og afslöppuðu upplifun sem boðið verður upp á“.

Keahótel ehf. er þriðja stærsta hótelkeðja landsins og með alls 900 herbergi í Reykjavík, á Akureyri, við Vík í Mýrdal og við Mývatn.