Rangur samanburður í kynningu á útboði WOW air

Tölur um rekstrarkostnað Icelandair sem finna mátti í nýrri útgáfu á kynningu á skuldabréfaútboði WOW voru ekki réttar. Þeim hefur nú verið eytt.

wowair freyja
Mynd: WOW air

Kynning á skuldabréfaútboði WOW air hefur verið umtöluð síðustu daga enda fátítt að eins ítarlegar upplýsingar um rekstur flugfélagsins liggi frammi. Hvort það hafi verið ætlunin hjá forsvarsmönnum verðbréfafyrirtækisins Pareto að skjalið færi í almenna dreifingu hefur ekki fengist staðfest en það mun vera óvenjulegt að svona upplýsingar séu birtar með þessu hætti. Í gær sagði Túristi svo frá því að tveimur blaðsíðum hefði verið bætt við útboðskynninguna og þar væri nú í fyrsta sinn að finna afkomutölur fyrir síðari hluta síðasta árs og spá um afkomuna á sama tímabili í ár.

Auk þess var bætt við samanburði á einingakostnaði nokkurra flugfélaga. Þar tróndi Icelandair á toppnum með hæsta kostnaðinn á meðan kostnaðurinn hjá WOW var sagður um helmingi lægri. Þessi glæra hefur nú verið fjarlægð og ástæðan mun vera sú, samkvæmt upplýsingum frá Pareto, að samanburðurinn byggir á röngum forsendum. Þar er nefnilega tekinn inn allur kostnaður við rekstur Icelandair Group og honum deilt niður á flogna kílómetra í millilandsflugi. Það þýðir að rekstur hótela fyrirtækisins, fraktflutningar, innanlandsflug, leiguflug og fleira ótengt millilandaflugi Icelandair er tekið inn í heildartöluna. Þar með verður kostnaður á hvern floginn kílómetra mun hærri hjá Icelandair en hann er í raun og veru.