Réttur viðskiptavina Netgíró óljós

Erfiðlega hefur gengið að fá svör frá forsvarsfólki Netgíró um réttindi þeirra viðskiptavina fyrirtækisins sem nýta þjónustuna til að greiða fyrir flugmiða. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins ætlar að tjá sig í næstu viku.

kef farthegar
Það er ekki sama hvernig farþegarnir borga fyrir flugmiðana sína ef rekstur flugfélagsins stöðvast áður en ferðin hefst. Mynd: Isavia

Eina leiðin til að bóka flugmiða á því verði sem kemur fram í auglýsingum WOW air er að greiða með Netgíró. Ef þú borgar hins vegar með greiðslukorti þá leggjast 999 krónur ofan á auglýsta farmiðaverðið. Þjónustu Netgíró kostar þó sitt því fyrirtækið rukkar viðskiptavini sína 295 krónur fyrir greiðslur sem eru hærri en 10 þúsund krónur. Það er því í raun ekki hægt að kaupa farmiða á því verði sem kemur fram í auglýsingum WOW. Nýverið hóf svo Icelandair að bjóða upp á Netgírógreiðslur en flugfélagið rukkar þó ekki aukalega fyrir greiðslukortagreiðslurnar og því er í raun dýrara að borga með Netgíró ef fljúga á með Icelandair.

Þrátt fyrir þessa miklu útbreiðslu Netgíró á íslenska flugmarkaðnum þá þekkja forsvarsmenn fyrirtækisins ekki stöðu viðskiptavina sinna ef svo óheppilega vildi til að rekstur íslensku millilandaflugfélaganna myndi stöðvast. Þetta kemur fram í frétt Mbl.is þar sem haft er eftir Helga Birni Kristinssyni, fram­kvæmda­stjóri Net­gíró, að hann gæti ekki geta tjáð sig um hvort fyr­ir­tækið myndi end­ur­greiða viðskipta­vin­um, sem fengu ekki full­greidda vöru eða þjón­ustu af­henta, fyrr en í næstu viku þegar álit lög­fræðings hef­ur borist. Frétt Mbl.is byggir á umræðu á Morgunvaktinni á Rás 1 þar sem Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, benti á þessa óljósu stöðu sem viðskiptavinir Netgíró eru í. Þess má geta að Túristi leitaði ítrekað upplýsinga hjá Helga Birni um málið fyrir helgi en hann svaraði hvorki tölvupóstum né síma.

Réttarstaða þeirra flugfarþega sem greiða með greiðslukortum er skýr ef þeir sitja upp með flugmiða sem þeir geta ekki notað vegna gjaldþrots flugrekenda. Þessir farþegar eiga að geta fengið miðana sína endurgreidda. Þannig hafði Vísir það nýverið eftir Viðari Þorkelssyni, forstjóra Valitor, að almenna reglan væri sú að fái korthafi ekki afhenta vöru eða þjónustu sem greitt hefur verið fyrir með greiðslukorti gerir hann endurkröfu í gegnum sinn viðskiptabanka sem aftur gerir kröfu á færsluhirði viðkomandi söluaðila. „Réttur korthafa varðandi endurgreiðslu er mjög sterkur þegar um óafhenta vöru eða þjónustu er að ræða samkvæmt reglum kortafélaganna Visa og MasterCard,“ sagði Viðar.