Ríflega helmingur flýgur hingað með íslensku flugfélögunum

56 af hverjum 100 ferðamönnum sem koma til Íslands fljúga með Icelandair eða WOW air. Hlutfallið er þó væntanlega aðeins hærra en kemur fram í tölum flugfélaganna tveggja.

Stærsti hluti þeirra ferðamanna sem hingað koma í flugi sitja um borð í þotum Icelandair og WOW air. Mynd: Alex Lopez / Unsplash

„Það yrði þó klárlega mikið högg ef annað flugfélagið færi og það tæki nokkur ár að ná einhverju jafnvægi. Það gefur augaleið.” Þetta sagði Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, í viðtali við Túrista í vor. Þá hafði þjóðhagslegt mikilvægi flugfélagsins hans og Icelandair verið til umræðu og sérstaklega í tengslum við ferðaþjónustuna. Þessi undirstöðu atvinnugrein á nefnilega allt undir því að flugsamgöngurnar til og frá landinu séu í föstum skorðum.

Fjárhagslegur styrkleiki Icelandair og WOW air hefur hins vegar verið mikið til umræðu síðustu vikur og sérstaklega síðustu tvo daga eftir að fjárhagsupplýsingar um stöðu WOW air komust í dreifingu í tengslum við væntanlega skuldabréfaútgáfu flugfélagsins. Og í þeim gögnum kemur meðal annars fram að í fyrra hafi 36 prósent farþega félagsins verið á leið til Íslands. Hinir voru tengifarþegar eða Íslendingar. Samkvæmt því flutti WOW um hálfa milljón ferðamanna til Íslands á síðasta ári.

Hjá Icelandair var hlutfall þessa farþegahóps jafn hátt og hjá aðal samkeppnisaðilanum en fjöldinn þó meiri eða um 730 þúsund. Í heildina hafa íslensku flugfélögin tvö því flutt hingað rétt rúmlega 1,2 milljónir ferðamanna en samtals fóru 2,2 milljónir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll í fyrra. Hlutdeild íslensku félaganna er því samtals um 56 prósent.

Vægi Icelandair og WOW air er þó líklega þónokkuð hærra því samkvæmt upplýsingum frá Icelandair þá teljast svokallaðir „stopover“ farþegar sem tengifarþegar jafnvel þó þeir hafa nokkurra daga viðdvöl á Íslandi. Ekki fékkst svar frá WOW air hvort sömu aðferðafræði er fylgt þar á bæ en ef svo er þá er ljóst að hlutdeild íslensku flugfélaganna í ferðamannastraumnum en töluvert hærra en 56 prósent. Það er því óhætt að taka undir þá fullyrðingu Skúla Mogensen að það yrði högg ef reksturs annars flugfélagsins myndi stöðvast.