SAS í meðbyr

Stjórnendur skandinavíska flugfélagsins reikna með að hagnaðurinn af rekstrinum verði meiri en upphaflega var gert ráð fyrir.

sas 860 a
Mynd: SAS

Fyrir nærri sex árum síðan lögðu stjórnendur SAS fram áætlun um hvernig mætti bjarga félaginu frá gjaldþroti. Stór hluti af þessu plani var breyting á kjörum starfsmanna félagsins sem sættust á að lægri laun, lengri vinnutíma, breytt orlofsréttindi og hærri lífeyrisaldur. Flugfélagið seldi jafnframt eignir og þar á meðal verðmæt lendingaleyfi á Heathrow flugvelli í London.

Í dag er staða SAS allt önnur og betri því í morgun kynnti forstjóri félagsins uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung (maí til júlí) og niðurstaðan er hagnaður upp á nærri 24 milljarða íslenskra króna. Þetta er einn besti ársfjórðungurinn í sögu SAS og niðurstaðan umfram væntingar. Búist er við að hagnaður ársins verði sömuleiðis meiri en upphaflega var gert ráð fyrir.

Þessi mikli viðsnúningur hjá SAS skrifast meðal annars á þá staðreynd að meðalfargjöldin hjá félaginu hækkuðu um nærri 7 af hundraði. Það hefur þó ekki allt gengið eins og í sögu hjá SAS undanfarið því tilraun félagsins til að flytja hluta af starfseminni til Írlands hefur ekki gengið sem skildi og hefur þurft að seinka fjöldamörgum flugferðum í sumar vegna þess. Forstjóri SAS baðst afsökunar á þessum truflunum í flugi félagsins í morgun. Forsvarsmenn flugfélagsins gera ráð fyrir að fargjöld hækki ennþá meira á næstunni og rekja það til hækkandi olíuverðs. „Þegar þotueldsneytið hækkar um helming þá getur maður ekki gert ráð fyrir ódýrum flugmiðum,“ hafði DN í Noregi eftir Torbjørn M. Wist, fjármálastjóra SAS, í morgun.

SAS býður upp á beint flug til Íslands frá Ósló og Kaupmannahöfn allt árið um kring.