Segir fjárhagsstöðu Icelandair sterka – Æskilegt að fylgst sé með að mati WOW

Ráðherr­ar funduðu um stöðu ís­lenskra flug­fé­laga í gær. Túristi leitaði viðbragða forsvarsmanna flugfélaganna tveggja við þeim tíðindum.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

„Samkvæmt fréttum er líklegt að stjórnvöld hafi rætt stöðu flugfélaganna og þar hefur eflaust komið fram að fjárhagsstaða Icelandair Group er mjög sterk. Icelandair Group var með 27 milljarða króna í handbæru fé þann 30. júní sl. og 57 milljarða króna í eigin fé. Eiginfjárhlutfallið var 32 prósent. Icelandair á langstærstan hluta flugvélaflota síns og er hann að mestu óveðsettur,“ segir Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, aðspurður um hvort hann telji tilefni til að staða flugfélagsins sé rædd sérstaklega á ráðherrafundum. En líkt og kom fram í viðtölum RÚV og Morgunblaðsins við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þá var staðan á flugmarkaði til umræðu á fundi hennar með nokkrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar í gær. Katrín sagði að forsvarsmenn flugfélaganna hefðu ekki óskað eftir aðstoð frá hinu opinbera.

Það að forsætisráðherra tjái sig með þessum hætti um íslensku flugfélögin sýnir hversu þungur tónn er í umræðunni um Icelandair og WOW air, tvö langstærstu flugfélög landsins. Málefni þeirra hafa verið í brennidepli síðustu vikur eftir að í ljós kom að rekstur Icelandair hefði versnað í ár og að WOW air hafi skilað tapi í fyrra. Segja má að óvænt birting á ítarlegum fjárhagsupplýsingum um WOW air í síðustu viku hafi orðið til að þess að vangavelturnar komust á enn alvarlegra stig. Í þeim gögnum kemur til að mynda fram að taprekstur WOW air hefur aukist í ár. Eiginfjárhlutfall félagsins er jafnframt lágt enda er nær allur flugfloti þess tekinn á leigu.

Túristi spurði einnig forsvarsfólk WOW air hvort það telji ástæðu til að málefni flugfélagsins séu til umræðu í ríkisstjórn. Í svari Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, segir að ferðaþjónustan sé orðin langstærsta atvinnugrein á Íslandi og því eðlilegt og æskilegt að stjórnvöld fylgist grannt með framvindu lykilfyrirtækja í greininni.