Samfélagsmiðlar

Skúli og Svanhvít skýra stöðuna

Í dag birtast viðtöl við forsvarsfólk WOW air í útbreiddustu dagblöðum landsins. Þar fást svör við nokkrum af þeim spurningum sem verið hafa uppi síðustu daga. Nokkrum atriðum er þó áfram ósvarað.

wow skuli airbus

Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air.

„Miðasala félagsins hefur verið fín og við sjáum ekki að þessi umfjöllun hafi haft nein áhrif á sölu miða síðustu daga,“ segir Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, í viðtali við Fréttablaðið í dag. Þar var hann spurður hvort hið mikla umtal um fjárhagslegan styrk WOW air hefði haft áhrif á farmiðasölu. Í því samhengi má benda á að staðan á íslenskum flugmarkaði var á dagskrá á ráðherrafundi í vikunni. Umfjöllunin takmarkast því ekki við kaffistofur landsins og það kann að vera ástæða þess að bæði Skúli Mogensen og Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, tjá sig við fjölmiðla í dag. Þó ber að hafa í huga að hlutfall Íslendinga í þotum WOW air er lágt því rétt um sjöundi hver farþegi kemur frá heimamarkaðinum. Vangaveltur hér á landi um fjárhagstöðu WOW air hafa því ósennilega einhver áhrif á sölu farmiða út í heimi. Þessi umræða gæti þó haft áhrif á innlenda og erlenda birgja félagsins.

Í fyrrnefndu viðtali við Fréttablaðið svarar Skúli mörgum af þeim spurningum sem vaknað hafa í kjölfar þess að WOW air birti upplýsingar um taprekstur sinn í fyrra og að útboðslýsing í tengslum við skuldabréfaútgáfu félagsins fór í dreifingu í síðustu viku. Þar kom til að mynda fram að eiginfjárstaðan hefði styrkst á fyrri helmingi ársins og segir Skúli skýringuna til að mynda að finna í kaupum á fraktflutningafyrirtækin Cargo Express. Þess ber þó að geta að Skúli átti sjálfur meirihlutann í því félagi og hvað sem líður núverandi verðmati á fraktflutningafélaginu má velta vöngum yfir því hvers virði það væri ef fyrirtækið yrði rekið sjálfstætt en ekki í nánum tengslum við flugfélag.

Sækja í viðskiptaferðalanga

Aðspurður um viðbrögð fjárfesta við yfirstandandi útboði WOW air á skuldabréfum fyrir 6 til 12 milljarða króna þá segir Skúli Fréttablaðinu að undirtektirnar hafi verið góðar. Það hefur þó vakið athygli að í útboðslýsingunni er gert ráð fyrir töluverðum viðsnúningi í rekstri WOW air á næsta ári en Skúli segir forsendurnar fyrir þeirri bætingu ekki vera hærra farmiðaverð og lækkandi olíuverði. „Við erum því ekki að spá hækkandi grunnfargjaldi og lækkandi olíuverði.“ Auknar hliðartekjur og sala á svokölluðum Premium sætum munu vera meginskýringin á auknum tekjum. Hvort það þýði að verðskrá WOW air fyrir innritun á töskum, val á sætum og fleiru álíka eigi eftir að hækka á eftir að koma í ljós en aukagjöld WOW nú þegar í hærri kantinum. Þannig borgar farþegi sem flýgur með félaginu frá London til New York, með millilendingu á Íslandi, 45% meira fyrir innritaðan farangur en í beinu flugi Norwegian á milli borganna.

Skúli hefur áður lýst því yfir að hann telji félagið eiga mikla möguleika í að laða til sín fleiri viðskiptaferðalanga sem bóki dýrari og breiðari sæti. Sá markhópur er samkeppnisaðilum WOW mjög mikilvægur því samkvæmt nýlegri úttekt IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, þá standa farþegarnir í fremsta farrými undir um helmingi tekna flugfélaganna í áætlunarferðum milli Evrópu og Norður-Ameríku. Samkeppnin um þá sem bóka dýrari sætin er því væntanlega ennþá harðari en um almenna farþega.

Stefna á verulega bætingu á seinni árshelmingi

Fréttablaðið birtir jafnframt spár forsvarsfólks WOW air um breyttan rekstur á seinni hluta ársins. Þar er gert ráð fyrir að tekjur og gjöld hækki um 35 prósent og að EBIDTA, rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, tvöfaldist frá sama tíma í fyrra. Spár um álíka jákvæða sveiflu á milli ára eru ekki að finna hjá stóru flugfélögunum í Evrópu þó mörg þeirra geri ráð fyrir að afkoman á þriðja ársfjórðungi verði góð. Hjá Norwegian, sem hefur verið leiðandi í verðlagningu á Atlantshafsflugi undanfarin misseri, þá var mikill hagnaður á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Tapið á þeim fjórða var hins vegar hátt.

Aukin fjárþörf skrifast líka á Indlandsflugið

Sem fyrr segir þá tjáir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, sig líka við fjölmiðla í dag. Í Morgunblaðinu er hún spurð út í ástæður þess að félagið þurfi nú að leita aukins fjármagns þrátt fyrir að hafa gefið það út í nóvember í fyrra að reksturinn væri að fullu fjármagnaður. Þetta er spurning sem Túristi hefur spurt forsvarsfólk WOW air síðustu vikur en ekki fengið svör í Morgunblaðinu segir Svanhvít að skýringin á aukinni fjármagnsþörf sé helst að finna í nýju Indlandsflugi félagsins. „Í nóvember á síðasta ári, þegar tilkynningin var send út, var ekki búið að taka ákvörðun um að hefja áætlunarflug til Indlands sem er umtalsverð fjárfesting fyrir félagið. Jafnframt viljum við styrkja okkur til mun lengri tíma en til loka árs 2019 og núverandi fjármögnun er liður í því,“ segir Svanhvít í Morgunblaðinu. Í grein blaðsins er hins vegar bent á að það hafi komið fram í máli forsvarsmanna WOW um langt skeið að þeir horfðu til Asíu og þau plön séu því ekki ný af nálinni.

 

Nýtt efni

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …

Í marsmánuði fór fjöldi erlendra ferðamanna í Japan í fyrsta skipti yfir 3 milljónir, samkvæmt tölum sem birtar voru í síðustu viku. Um 2,7 milljónir komu í febrúar. Auðvitað nýtur japönsk ferðaþjónusta nú uppsafnaðrar löngunar erlendra ferðamanna á að heimsækja loks Japan eftir langvarandi lokun og ferðahindranir í tengslum við Covid-19 en það er ekki …

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands var heiðraður á ársfundi Meet in Reykjavik í gær. Hann leiddi til sigurs umsókn Íslands um að fá ráðstefnuna „International Geoscience and Remote Sensing Symposium (IGARSS)“ til Reykjavíkur í júlí 2027. Gert er ráð fyrir að 2.500 erlendir vísindamenn og fagfólk á sviði fjarkönnunar frá öllum heimshornum sæki ráðstefnuna …

United Airlines tilkynntu í gær um betri afkomu en vænst var á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur í framhaldi af því að tapið á fyrsta fjórðungi var minna en óttast hafði verið. Megin ástæða þess að vel gengur er einfaldlega mikill áhugi á ferðalögum. Hlutabréf í United hækkuðu strax í fyrstu viðskiptum eftir að tilkynnt var …