Stjórnarmaður WOW tekur sæti í stjórn JetBlue

Ben Baldanza sem setið hefur stjórn WOW air í rúm 2 ár hefur tekið sæti í stjórn bandaríska flugfélagsins JetBlue.

Ben Baldanza. Myndir: WOW air

Í byrjun þarsíðasta árs lét Ben Baldanza af störfum sem forstjóri Spirit flugfélagsins í Bandaríkjunum eftir að hafa leitt flugfélagið í rúman áratug. Nokkrum mánuðum síðar tók hann sæti í stjórn WOW air og situr þar enn þann dag í dag samkvæmt þeim upplýsingum sem finna má á heimasíðu WOW.

Baldanza sinnir þó fleiri trúnaðarstörfum í fluggeiranum því í síðustu viku var tilkynnt að hann væri nýr í stjórn bandaríska flugfélagsins JetBlue. Það flugfélag hyggur á Evrópuflug frá Boston og New York en WOW air flýgur daglega til borganna beggja allt árið um kring.