Þéttsetnari þotur en færri farþegar

Flugferðunum milli Íslands og Kaupmannahafnar fækkaði þónokkuð í júli og þar með flugu færri hingað frá Danmörku. Aftur á móti voru fleiri í hverri ferð.

cph terminal
Frá Kaupmannahafnarflugvelli. Mynd: Cph.dk

Af öllum þeim áfangastöðum sem flogið er til frá Kaupmannahafnarflugvelli þá voru ferðirnar hingað til lands þær níunda vinsælustu í júlí. Það er þó ekkert nýtt að Reykjavík rati inn á topp 10 listann sem forsvarsfólk danska flugvallarins gefur út í lok hvers mánaðar vanalega fer farþegunum í Íslandsfluginu fjölgandi. Svo var ekki í síðasta mánuði því þá nýttu 69.268 farþegar sér áætlunarflug Icelandair, SAS og WOW til Íslands sem er samdráttur um 3.360 farþega frá júlí í fyrra. Það samsvarar minnkun upp á 4,6 prósent.

Talning Túrista á áætlunarflugi, til og frá Keflavíkurflugvelli, leiðir einnig í ljós fækkun því áætlunarferðirnar til Kaupmannahafnar drógust saman um nærri tíund í júlí. Út frá talningu Túrista og þeim tölum sem danski flugvöllurinn veitir þá má áætla að 185 farþegar hafi að jafnaði setið í þotunum sem flugu milli Íslands og Kaupmannahafnar í nýliðnum júlí. Meðalfjöldinn var hins vegar 175 farþegar á sama tíma í fyrra.

Þess má geta að upplýsingagjöf Kaupmannahafnarflugvallar um farþegafjölda er mun ítarlegri en þekkist hér á landi. Túristi hefur kært þennan íslenska skort á opinberum gögnum um fólksflutninga til úrskurðarnefndar upplýsingamála.