Tómas hættir aftur hjá WOW air

Eftir rúma fimm mánuði í starfi hefur Tómas Ingason látið af störfum hjá WOW air. Skúli Mogensen tekur við markaðsmálum flugfélagsins.

Mynd: WOW air

Í lok febrúar tók Tómas Ingason við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptasviðs WOW air. Hann hafði gegnt álíka stöðu hjá flugfélaginu um nokkurra mánaða skeið árið 2014 en þá var honum sagt upp störfum. Þrátt fyrir þau starfslok þá réði Tómas sig til starfa á ný hjá WOW air í ársbyrjun en nú hefur hann látið af störfum. Þetta staðfestir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, í svari við fyrirspurn Túrista.

Aðspurð um hver taki við starfi Tómasar segir Svanhvít að Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi, muni annast stjórn sölu- og markaðsmála flugfélagsins.