Vill ekki segja afhverju gögnin um WOW voru gerð opinber

Sá sem er forsvari fyrir fjármögnun WOW vill ekki tjá sig um stöðu mála og afhverju viðkvæmar upplýsingar um flugfélagið voru birtar í vikunni.

Mynd: WOW air

Fjárhagsleg staða WOW air hefur ekki verið upp á borðinu síðustu misseri og til að mynda birta fyrirtækið nú í sumar í fyrsta sinn upplýsingar um afkomu sína árið 2017. Fyrr í þessari viku birtust svo óvænt mjög ítarleg gögn á heimasíðu norræna fjármálafyrirtækisins Pareto um rekstur WOW air og framtíðaráform þess. Um var að ræða kynningu á skuldabréfaútgáfu íslenska flugfélagsins upp á  6 til 12 milljarða króna og hafa íslenskir fjölmiðlar birt fjölda margar fréttir byggðar á þessum upplýsingum síðustu daga. Meðal annars hefur komið að taprekstur WOW air hefur aukist í ár.

Það mun vera mjög óvenjulegt að svona viðkvæmar upplýsingar séu gerða opinberar með þessum hætti í tengslum við skuldabréfaútboð samkvæmt því sem viðmælendur Túrista, úr íslenskum fjármálaheimi, segja. Venjan er frekar sú að stutt samantekt sé send fjárfestum og fjármálafyrirtækjum og þessi aðilar geti í framhaldi óskað eftir ítarlegri gögnum en skrifi um leið undir þagnareið. Þessi leið var ekki farinn í tilviki WOW air sem fyrr segir.

Sá starfsmaður Pareto fjármálafyrirtækisins sem sér um skuldabréfaútboð WOW air vill hins vegar ekki tjá sig um framkvæmdina. „Ég vil ekkert segja. Þessu samtali er lokið,“ endurtók viðkomandi nokkrum sinnum þegar þegar Túristi náði af honum tali nú í morgun og bar upp spurningar um skuldabréfaútboðið.

Eins og fram hefur komið þá ætla forsvarsmenn WOW air ekki tjá sig um skuldabréfaútgáfuna fyrr en síðar.