WOW leitar eftir fjármagni hjá frændþjóðunum

Þegar næsta ár verður gert upp þá á WOW air að vera orðið stærra flugfélag en Icelandair. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kynningu á skuldabréfaútboði WOW air.

wow skuli airbus
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air. Mynd: WOW air

Það hefur verið mikill stígandi í umræðunni um fjárhagslegan styrkleika íslensku flugfélaganna síðustu vikur. Segja má að upphafið mega rekja til sunnudagsins 8. júlí þegar Icelandair lækkaði afkomuspá sína fyrir árið. Í kjölfarið tók gengi hlutabréfa fyrirtækisins dýfu. Fimm dögum síðar birti WOW air fyrstu upplýsingarnar um reksturinn í fyrra og niðurstaðan var 2,4 milljarða króna tap.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, tjáði sig um þessi tíðindi í kjölfarið og sagðist trúa því að stjórnndur flugfélaganna næðu að stýra þeim inn á beinu brautina á ný. Ráðherra kom svo fram að nýju í síðustu viku og sagði að í samgönguráðuneytinu væri unnið að áætlun sem grípa megi til ef rekstur mikilvægra fyrirtækja fer úr skorðum. Munu Icelandair og WOW air teljast til þess háttar fyrirtækja.

Í fyrradag sagði Túristi svo frá því að hlutafé í WOW air hefði núverið verið hækkað um helming en um var að ræða breytingu á skuld við Skúla Mogensen, eiganda félagsins, í hlutafé. Þessi viðskipti lækkuðu þar með skuldir félagsins en ekki kom inn nýtt fé. Þá innspýtingu í reksturinn freista forsvarsmenn félagsins hins vegar til að ná í núna með útgáfu skuldabréfa upp á 6 til 12 milljarða króna í Skandinavíu.

Kynning á þessari útgáfu er nú í dreifingu víða og hefur Túristi eintak af henni. Þar eru birtar ítarlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu WOW air og markmið. Þar segir til að mynda að í lok næsta árs geri áætlanir ráð fyrir að WOW air verði umsvifamesta flugfélag landsins og stefnt er að skráningu á hlutabréfamarkað innan fárra ára. Hins vegar kemur líka fram að rekstur WOW air hefur þyngst verulega og tapið, síðustu 12 mánuði, nemur um 4,9 milljörðum.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins þá vildi Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, ekki tjá sig um skuldabréfaútgáfuna við blaðið.