Áfram samdráttur í innanlandsfluginu

Farþegum á innanlandsflugvöllunum fækkaði um fimm af hundraði í ágúst. Hlutfallslega var fækkunin mest á Egilsstöðum.

egilsstadaflugvollur
Flugstöðin á Egilsstöðum en þar var fækkunin mest í ágúst. Mynd: Isavia

Tæplega 82 þúsund farþegar fór um innanlandsflugvellina í ágúst en þeir voru 4423 fleiri í ágúst í fyrra. Samdrátturinn sem verið hefur í innanfluginu í ár heldur því áfram. Á fyrri helmingi ársins  fækkaði farþegum á öðrum flugvöllum en á Keflavíkurflugvelli um 8 þúsund og dýfan var umtalsverð í júlí þegar farþegunum fækkaði um 6 þúsund.

Hlutfallslega var minnkunin í ágúst mest á Egilsstaðaflugvelli því hann nýttu um 12 prósent færri farþegar en á sama tíma í fyrra. Á Akureyrarflugvelli fækkaði farþegum um ríflega 5 af hundraði en þar var samdrátturinn í flugumferð mestur því flugtökum og lendingum fækkaði um rúm 28 prósent samkvæmt tölum frá Isavia.

Eins og kom fram í umfjöllun Túrista nýverið þá hefur breytt flóra ferðamanna vegið þungt í þessari neikvæðu þróun í innanlandsfluginu í sumar.