Alls staðar samdráttur nema á Suður­landi

Útlendingar bókuðu nærri 10 þúsund færri gistinginætur á íslenskum hótelum í júlí í samanburði við sama tíma í fyrra.

Exeter og Konsulat Reykjavík, tvö af nýjustu hótelum höfuðborgarinnar. Myndir: Keahótelin og Icelandair hótel

Júlí er næst umsvifa­mesti mánuð­urinn í íslenskri ferða­þjón­ustu og samkvæmt taln­ingu Ferða­mála­stofu þá fjölgaði brott­förum útlend­inga frá Kefla­vík­ur­flug­velli um 2,5 prósent í júlí í ár. Nýjar tölur Hagstof­unnar sýna hins vegar að gistnótt­unum útlend­inga á hótelum hér á landi fækkaði um 2,3 prósent. Samdrátt­urinn náði til allra lands­hluta nema Suður­lands þar sem hótel­nætur erlendra ferða­manna voru ríflega 4 þúsund fleiri en í júlí í fyrra. Hlut­falls­lega var fækk­unin mest á Norður- og Austulandi eins og sjá má á töfl­unni hér fyrir neðan.

Ekki liggja fyrir tölur fyrir aðrar tegundir gist­ingar og því ekki hægt að segja til um hvort dval­ar­tími útlend­inga hafi styst í sumar.

Þegar litið til einstakra þjóð­erna þá sést að nótt­unum fækkaði hjá 15 af þeim 20 þjóðum sem keyptu flestar hótelg­ist­ingar hér á landi í júlí. Banda­ríkja­menn, Kínverjar, Ísra­elar, Rússar og Indverjar juku viðskipti sín við íslensk hótel en aftur á móti fækkaði þýskum hótelgestum veru­lega eða um ríflega fjórðung.