Auknar álögur á millilandaflug ennþá á borðinu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru talað um sérstök komu- og brottfarargjöld á flugumferð. Staðan á íslenskum flugmarkaði hefur versnað verulega síðan hugmyndin var sett fram.

Farþegagjöld Keflavíkurflugvallar gætu hækkað í takt við það sem boðað var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Mynd: Gerrie van der Walt / Unsplash

Um mitt sumar lækkuðu forsvarsmenn Icelandair afkomuspá sína fyrir árið og nokkrum dögum síðar birti WOW air í fyrsta skipti upplýsingar um taprekstur sinn í fyrra. Í framhaldinu fór umræðan um stöðu Icelandair og WOW air á flug og sérstaklega þess síðarnefnda eftir að skuldabréfaútboð félagsins hófst fyrir opnum tjöldum um miðjan ágúst. Um helgina sagði Morgunblaðið svo frá því að skuld WOW air við Isavia væri um 2 milljarðar en forstjóri WOW vísaði því á bug. Sagði félagið aldrei hafa skuldað yfir 2 milljarða í flugvallagjöld. Einhver eru vanskilin þó líkt og kom fram í viðtali Túrista við Ben Baldanza, fyrrum stjórnarmann í WOW, um helgina.

Á sama tíma og umræðan um fjárhagslegan styrklega flugfélaganna hefur verið í hámæli þá hefur starfshópur unnið að tillögum um nýja gjaldtöku í ferðaþjónustu. Í hópnum sitja fulltrúar þeirra sem eiga aðild að stjórn Stjórnstöðvar ferðamála, þ.e.a.s. fjórir ráðherrar, Samtök íslenskra sveitarfélaga og Samtök ferðaþjónustunnar. Hópnum er ætlað að skila tillögum í haust og samkvæmt heimildum Túrista þá eru hærri komu- og brottfarargjöld til umræðu í nefndinni. Sú tekjuleið er líka sérstaklega nefnd í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og tíminn til að innleiða nýja hana er skammur. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir nefnilega ráð fyrir að ný gjaldtaka af ferðafólki hefjist árið 2020 og skili ríkinu tekjum upp á 2,5 milljarða á ári.

Staðan á íslenskum flugmarkaði gæti þó hafa dregið úr áhuga á nýjum komu- og brottfarargjöldum. Þess háttar gjald þarf líka að leggja á innanlandsflugið líkt og fram kom í greinargerð sem fylgdi frumvarpi um náttúrupassa um árið. Þar var fullyrt að auknar álögur á innanlandsflugið myndu skila sér út í verðlagi og leiða til minni eftirspurnar. Í því samhengi má benda á að fyrstu sjö mánuði þessa árs hafa 14 þúsund færri farþegar farið um innanlandsflugvellina í samanburði við sama tíma í fyrra.