Bæta við ferðum milli Íslands og Moskvu

Rússneska flugfélagið S7 ætlar að fljúga þotum sínum tvisvar í viku til Íslands næsta sumar.

Þotur S7 munu á ný leggja upp að Leifsstöð næsta sumar. Mynd: S7

Í sumarbyrjun fór rússneska flugfélagið S7 í jómfrúarferð sína til Íslands frá Moskvu og þar með komust á beinar flugsamgöngur milli Íslands og Rússlands á ný. Þær höfðu legið niður allt frá því að Icelandair hætti að fljúga til Sankti Pétursborgar sumarið 2014. Það áætlunarflug stóð þó aðeins yfir í tvö sumur en Íslandsflug S7 gæti átt sér lengri framtíð því næsta sumar ætla stjórnendur flugfélagsins að fjölga ferðunum hingað úr úr einni í tvær í viku. Þetta staðfestir Nadja Goreva, talskona félagsins, í svari til Túrista.

Það að S7 taki upp þráðinn næsta sumar kemur ekki á óvart því flugið fékk góðar viðtökur í sumar og munu fjölmargir Íslendingar hafa nýtt sér það í tengslum við ferðir á leik íslenska karlalandsliðsins í Rússlandi síðastliðið sumar. Að sama skapi fjölgaði rússnesku ferðafólki hér á landi um 14 prósent í sumar samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Þotur S7 munu fljúga frá Keflavíkurflugvelli rétt fyrir miðnætti á miðvikudögum og laugardögum í sumar og lenda þoturnar í Moskvu í morgunsárið.