Baldanza ekki lengur sagður vera í stjórn WOW

Öfugt við það sem kom fram í útboðsgögnum og á heimasíðu WOW þá var Bandaríkjamaðurinn Ben Baldanza er ekki lengur í stjórn félagsins.

Ben Baldanza er ekki lengur á lista yfir stjórnarmenn í WOW. Myndir: WOW air

Um miðjan ágúst var Ben Baldansa, stjórnarmaður í WOW, kynntur sem nýr maður í stjórn bandaríska flugfélagsins JetBlue. Þessi nýju störf hans höfðu þó engin áhrif á stöðu hans sem stjórnarmanns hjá WOW air samkvæmt svörum frá Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW. Það reyndist ekki rétt því Baldanza lét af stjórnarmennsku hjá WOW á sama tíma og hann tók sæti í stjórn Jet Blue. Þetta staðfesti Baldanza í viðtali við Túrista á laugardag en nafn hans var þá að finna í kynningu á skuldabréfaútboði WOW air og líka á heimasíðu félagsins.

Nú hefur nafn hans hins vegar verið fjarlægt af heimasíðu WOW og eru þar núna aðeins nöfn fjögurra stjórnarmeðlima. Einn þeirra er Helga Hlín Hákonardóttir, lögmaður, en hún ráðleggur fjárfestum og stjórnum um lögboðna og góða stjórnarhætti samkvæmt því sem segir á heimasíðu WOW. Í því ljósi óskaði Túristi eftir skoðun hennar á því að Baldanza hafi verið titlaður stjórnarmaður á heimasíðu og í útboðsgögnum þegar hann var það ekki. „Ben sat í stjórn þegar útboðsgögn voru undirrituð og gefin út. Þegar lá fyrir að hann hygðist segja sig úr stjórn var fjárfestum greint frá því. Ben hefur ekki sent tilkynningu um úrsögn sína til Fyrirtækjaskrár,“ segir Helga Hlín og bætir því við að stjórn WOW komi saman á næstu dögum til að undirrita formlega tilkynningu um brotthvarf Baldanza úr stjórninni.

Eins og Túristi greindi hins vegar frá í lok ágúst þá voru gerðar breytingar á útboðsgögnum eftir að þau voru fyrst birt og þau voru því ekki óbreytt allt frá undirritun stjórnarinnar. Ekki fengust viðbrögð frá Helgu Hlín á þá staðreynd.

Þess má geta að auk stjórnarsetu hjá WOW þá er Helga Hlín jafnframt stjórnarformaður VÍS.