Boða samkeppni í flugi til Orlando

WOW air ætlar að bjóða upp á reglulegar ferðir til Orlando í vetur. Icelandair hefur flogið þangað um áratugaskeið.

Lake Eola í Orlando Mynd: Visit Orlando

Síðastliðinn vetur var flogið beint héðan til þriggja borga á Flórídaskagnum. Þotur Icelandair fóru til Orlando og Tampa á meðan WOW bauð upp á áætlunarflug til Miami. Því flugi var hætt í vor en nú ætlar WOW að færa sig yfir til Orlando og verður fyrsta ferð farin þann 18. desember. Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að flogið verði þrisvar í viku fram í lok apríl.

Orlando hefur verið hluti að leiðakerfi Icelandair síðan árið 1984 og var félagið þá fyrsta alþjóðaflugfélagið á Orlando International flugvellinum. Nú takmarkast ferðirnar þaðan ekki lengur við innanlandsflug enda nokkrar evrópskar borgir hluti að úrvalinu sem farþegum í Orlando stendur til boða. Norwegian er til að mynda umsvifamikið þar með áætlunarferðir til Orlando frá Ósló, Kaupmannahöfn og París. Og nú munu tvö flugfélög bjóða upp á ferðir til Íslands yfir háveturinn.

Líkt og fram kom í verðkönnun Túrista í gær þá er verðið á bílaleigubílum á Orlando International flugvelli hagstæðara í dag í samanburði við árin á undan.