Breytingar á flugframboði geta haft víðtæk áhrif

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að þar á bæ sé fylgst með stöðunni á flugmarkaði en hún er tvísýn þessa dagana.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF Mynd: SAF

Það lét nærri að fjórði hver ferðamaður sem hingað kom í fyrra hafi verið farþegi WOW air og um þriðjungur hafi flogið með Icelandair. Önnur flugfélög skipta því með sér innan við helmingi af ferðamannastraumnum. Þetta má reikna út frá upplýsingum sem íslensku flugfélögin hafa gefið upp um vægi erlendra ferðamanna í farþegahópnum í fyrra. Mikilvægi Icelandair og WOW air er því mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu og því óhætt að fullyrða að nú bíði margir fregna af niðurstöðu í skuldabréfaútboði WOW air. Félagið ætlar að sækja sér lánsfé upp á 6 til 12 milljarða  og gaf Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi, það út fyrir helgi að fréttir af málinu myndu berast öðru hvoru megin við helgi. Ekkert hefur heyrst ennþá.

„Óvissa er almennt óholl í fyrirtækjarekstri. Mikilvægi stöðugleika í flugframboði til landsins er auk þess augljóst þar sem yfirgnæfandi meirihluti ferðamanna með Ísland sem áfangastað koma hingað með áætlunarflugi. Breytingar á flugframboði geta haft víðtæk og fjölbreytileg áhrif eins og við höfum séð á síðustu mánuðum. Við fylgjumst því áfram með stöðunni,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, aðspurður um þá óvissu sem nú ríkir um flugsamgöngur til og frá landinu næstu misseri.

Líkt og Túristi greindi frá fyrir helgi þá má leiða líkum að því að gjaldþrot Airberlin hafi haft mjög neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Þýska flugfélagið var nefnilega umsvifamikið í Íslandsflugi og til að mynda voru um 34 þúsund sæti í þotum félagsins sem flugu til Keflavíkurflugvallar frá Þýskalandi síðastliðið sumar. Skarðið sem félagið skildi eftir sig var því mikið en til samanburðar þá fækkaði þýsku ferðafólki hér á landi um nærri 20 þúsund í sumar.