Fækka ferðum til Nýju Delí

Seinkun verður á afhendingu nýrra breiðþota til WOW air og því hefur félagið tekið út tvær af fimm vikulegum brottförum til Nýju Delí.

Nizamuddin moskan í Nýju Delí. Mynd: Jiri Moonen / Unsplash

Jómfrúarferð WOW air til Nýju Delí á Indlandi er á dagskrá 6.desember og þar með verður í fyrsta sinn í boði áætlunarflug héðan til Asíu. Þetta verður jafnframt lengsta flugferðin frá Keflavíkurflugvelli því það tekur breiðþotur WOW um 10,5 tíma að fljúga alla þessa leið.

Þegar WOW air tilkynnti um þessa nýju flugleið þá kom fram að flogið yrði fimm sinnum í viku en nú hefur brottförunum verið fækkað niður í þrjár þar sem afhending á Airbus 330neo þotunum, sem nota á í flugið, hefur seinkað. „Strax og nýju vélarnar verða afhentar förum við í fimm flug í viku,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air. Það eru brottfarirnar á mánudögum og miðvikudögum sem detta út en áfram verður flogið héðan til Indlands á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum. Breiðþoturnar sem fyrir eru í flota WOW verða nýttar í flugið til Nýju Delí og af þeim sökum þarf að fella niður eina ferð í viku til bæði San Francisco og Los Angeles.

Nýja Delí er önnur stærsta borg Indlands á eftir Mumbai en eins og áður hefur komið fram þá horfir forstjóri WOW til fleiri áfangastaða í Indlandi. Í vor sagði Björgólfur Jóhannsson, þáverandi forstjóra Icelandair Group, að stjórnendur félagsins horfi til Indlandsflugs á næsta ári. Ekki hefur heyrst meira af þeim áformum Icelandair.