Fjölga sætunum í Íslandsfluginu um 100 í viku

Bandaríska flugfélagið Delta heldur uppteknum hætti á Keflavíkurflugvelli í vetur og býður upp á fjórar ferðir í viku til New York. Núna verða þoturnar hins vegar stærri en áður.

Boeing 757-200 þota líkt og Delta notar í áætlunarflug sitt hingað frá New York. Mynd: Delta Air Lines

Það voru ákveðin tímamót sumarið 2011 þegar flugfélagið Delta hóf að fljúga til Íslands frá New York. Aldrei áður hafði bandarískt flugfélagið boðið upp á reglulegar ferðir hingað og á þessum tímapunkti voru erlendu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli miklu færri en þau eru í dag. Fyrst um sinn takmarkaðist Íslandsflug Delta við sumarmánuðina. Svo bættist við samskonar áætlun frá Minneapolis og síðustu tvo vetur hafa þotur Delta flogið hingað allt árið um kring frá JFK í New York.

Á því verður ekki breyting í vetur nema að því leiti að þoturnar verða stærri. Í stað þess að 168 sæti verði í boði í hverri ferð þá verða þau 193. Viðbótin nemur því 100 sætum í hverri viku því að jafnaði lenda þotur Delta á Keflavíkurflugvelli fjórum sinnum í viku á veturna.

Auk Delta þá fljúga Icelandair og WOW air til New York allt árið um kring.