Flugfélögin segja upp fólki

Á þriðja tug var sagt upp störfum hjá Icelandair í vikunni og tíu starfsmönnum hjá WOW air.

icelandair wow
Myndir: Icelandair og WOW air

Versnandi staða íslensku flugfélaganna hefur verið töluvert í umræðunni allt frá því að Icelandair lækkaði afkomuspá sína um mitt sumar og WOW air upplýsti um taprekstur síðasta árs. Í kjölfarið komu svo fréttir af breytingum í stjórnendateymi Icelandair og skuldabréfaútboð WOW air hefur fengið mikla athygli síðustu vikur.

Þessar hræringar eru nú farnar að koma fram í starfsmannamálum flugfélaganna því nýverið var þeim flugfreyjum og flugþjónum Icelandair sem eru í hlutastarfi gert að  þiggja fullt starf eða semja annars um starfslok. Á þriðja tug starfsmanna flugfélagsins var svo sagt upp störfum í vikunni. Haft var eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, á Vísi að uppsagnirnar nái til starfsfólks á ýmsum sviðum og deildum starfsstöðva flugfélagsins í Reykjavík og Keflavík. Guðjón sagði þetta vera lið í hagræðingaraðgerðum sem félagið hefur gripið til að undanförnu, en félagið hefur farið í gegnum mikla erfiðleika á markaði sökum harðnandi samkeppni og hækkandi olíuverðs.

Hjá WOW air var 10 starfsmönnum sagt upp nú fyrir mánaðarmótin samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. Í heildina hefur því á fjórða tug starfsmanna flugfélaganna tveggja verið afhend uppsagnarbréf fyrir þessi mánaðarmót.