Flugið til Evrópu gengur betur en Ameríkuflugið

Áfram eru þotur Icelandair sem fljúga til og frá Evrópu mun betur nýttar en þeir sem fljúga vestur um haf.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Fjöldi farþega Icelandair í ágúst nam 523 þúsund og fækkaði þeim um 1 prósent miðað við ágúst á síðasta ári. Að jafnaði voru um 86 af hverjum 100 sætum skipuð farþegum sem er lækkunin um tvö prósentustig frá því í fyrra. „Í ágúst er sama þróun og undanfarna mánuði. Sala á áfangastaði í N-Ameríku hefur ekki fylgt framboðsaukningunni eftir á meðan að sala til Evrópu hefur verið mjög góð. Til samanburðar þá var sætanýting á leiðum Icelandair í Evrópu 90,8% og jókst um 5,8 prósentustig á milli ára á meðan að sætanýting á leiðum félagsins til N-Ameríku var 83,1% og lækkaði um 6,7 prósentustig á milli ára. Fjöldi farþega á heimamarkaðinum frá Íslandi og ferðamannamarkaðinum til Íslands jókst á milli ára, en dróst saman á N-Atlantshafsmarkaðinum.“ segir í tilkynningu frá Icelandair.

Þar kemur jafnframt fram að fjöldi farþega á heimamarkaðinum frá Íslandi og ferðamannamarkaðinum til Íslands jókst á milli ára, en dróst saman á N-Atlantshafsmarkaðinum. Þetta er ekki sama þróun og hjá WOW air því fyrr í vikunni kom fram í tilkynningu frá félaginu að hlutfall skiptifarþega hafi hækkað í ágúst úr 43% í 61%.