Frí hleðsla fyrir þá sem keyra eftir flugfarþegum á rafbíl

Þeir sem ætla að sækja ættingja og vini út á flugvöll geta nú hlaðið rafbíl gjaldfrjálst á komustæðinu.

Ein af nýju hleðslustöðvunum á flugvallarsvæðinu Mynd: Isavia

Hleðslustöðvar fyrir rafbíla hafa verið teknar í notkun við Keflavíkurflugvöll og eru þær 11 í heildina. Hleðslustöðvarnar eru ætlaðar fyrir farþega en einnig starfsfólk á flugvellinum. Í tilkynningu frá Isavia er haft eftir Gunnari Inga Hafsteinssyni, þjónustustjóra bílastæðaþjónustu Keflavíkurflugvallar, að hann fagni því að búið sé að setja upp fyrstu hleðslustöðvarnar fyrir rafbíla við flugvöllinn, en þeim eigi vafalaust enn eftir að fjölga í framtíðinni. „Isavia hefur tekið rafbíla í notkun í sinni starfsemi. Það eru umhverfismildir og hagkvæmir bílar sem minnka kolefnisfótsport flugvallarins,“ segir Gunnar Ingi. „Uppsetning á hleðslustöðvum er liður í því verkefni og auðveldar ferðalöngum og starfsfólki okkar að nýta sér þennan umhverfisvæna orkugjafa.“

Ein stöðin, sem er 50 kílóvatta hraðhleðslustöð frá ABB, hefur verið sett upp á komubílastæðum P2 við Keflavíkurflugvöll. Stöðin er gjaldfrjáls en greitt er fyrir viðveru á stæðinu ef bíl er lagt þar lengur en í 15 mínútur. Þá er einnig búið að setja upp sex 32A hleðslustöðvar á bílastæðum starfsmanna við Keflavíkurflugvöll. Þar stendur starfsmönnum til boða að hlaða rafmagnsbifreiðar sínar þeim að kostnaðarlausu. Þessu til viðbótar hafa verið teknar í notkun fjórar hleðslustöðvar fyrir viðskiptavini sem panta Lagningarþjónustu á bílastæðum Keflavíkurflugvallar. Þar er um að ræða eina 22 kílóvatta stöð frá EVlink og tvær 32A hleðslustöðvar. Hleðslan verður notendum að kostnaðarlausu samkvæmt því sem segir í tilkynningu.