Hætta Íslandsflugi frá Köln

Áfram skera stjórnendur Eurowings niður áætlunina til Íslands og næsta sumar munu þotur félagsins aðeins fljúga hingað frá Hamborg.

Mynd: Eurowings

Þýska flugfélagið Germanwings var lengi stórtækt í Íslandsflugi yfir sumarmánuðina og bauð þá upp á reglulegar ferðir hingað frá Berlín, Dusseldorf, Stuttgart, Köln og Hamborg. Flugfélagið fékk heitið Eurowings árið 2016 og það sumar gátu farþegar þess flogið hingað frá fyrrnefndum fimm borgum. Í fyrra varð hins vegar breyting á þegar þotur Eurowings hættu að koma hingað frá Berlín, Dusseldorf og Stuttgart en í þeirri síðastnefndu var félagið það eina með ferðir til Íslands á boðstólum.

Á nýliðnu sumri voru flugvélar Eurowings því fátíðar við Leifsstöð og samkvæmt talningu Túrista þá fækkaði ferðum Eurowings í júní úr 40 í 14. Samdrátturinn nam nærri tveimur þriðju og í sætum talið hefur hann numið hátt í 15 þúsund flugsætum í sumar. Og áfram verður skorið niður því næsta sumar mun Íslandsflug Eurowings takmarkast við tvær ferðir í viku frá Hamborg. Ferðirnar frá Köln leggjast nefnilega af samkvæmt upplýsingum frá Eurowings en ekki fást skýringar á breytingunni. Þar með dettur Köln út af leiðakerfi Keflavíkurflugvallar líkt og Stuttgart gerði í fyrra. Til samanburðar má nefna að sumarið 2012 buðu þrjú flugfélög upp á áætlunarferðir milli Íslands og Kölnar.

Það er þó bót í máli að Icelandair stefnir á  aukið Þýskalandsflug á næsta ári. Ferðunum til Frankfurt, Munchen, Hamborgar og Berlínar fjölgar og eins bætist við nýtt áætlunarflug til Dusseldorf. Framboð á sætum eykst þó hlutfallslega ekki eins mikið og ferðunum því Icelandair tekur í notkun fleiri Boeing MAX þotur á næsta ári og í þeim eru færri sæti en í hinum hefðbundnu Boeing 757 þotum sem félagið styðst vanalega við.

Samkvæmt svörum frá Lufthansa, stærsta flugfélagi Þýskalands, þá liggur endanlega dagskrá fyrir Ísland ekki fyrir á þessari stundu en miðað við þau flug sem nú eru bókanleg þá verða ferðir Lufthansa frá Frankfurt og Munchen í föstum skorðum. Hjá WOW air er hægt að bóka flug til Berlínar og Frankfurt en ennþá ekki til Dusseldorf. Germania verður svo með ferðir hingað yfir hásumarið frá Nürnberg, Dresden og Bremen.

Í heildina geta því Þjóðverjar flogið til Íslands frá 8 borgum næsta sumar en þýskum ferðamönnum hér á landi fækkaði í sumar um nærri fjórðung.