Hættur í stjórn WOW air

Ben Baldanza er ekki lengur í stjórn íslenska flugfélagsins en sinnir ráðgjafastörfum fyrir félagið.

Það vakti nokkra athygli þegar Bandaríkjamaðurinn Ben Baldanza tók sæti í stjórn WOW air. Baldanza hefur nefnilega mikla reynslu úr fluggeiranum og var til að mynda forstjóri Spirit flugfélagsins á árunum 2005 til 2016. Stuttu eftir að hann lét af störfum þá settist hann í stjórn WOW air.

Í lok sumars tók Ben Baldanza sæti í stjórn flugfélagsins JetBlue í Boston líkt og Túristi greindi frá. Í fréttatilkynningu frá bandaríska flugfélaginu þann 15. ágúst kom hins vegar hvergi fram að Baldanza væri jafnframt stjórnarmaður í WOW air. Svanhvít Friðriksdóttir, talskona flugfélagsins, staðfesti hins vegar í svari til Túrista að Baldanza væri ennþá í stjórn WOW líkt og hann hefði verið síðustu þrjú ár.

Í samtali við Túrista í dag segir Baldanza hins vegar að hann hafi hætt í stjórn WOW um leið og hann hóf trúnaðarstörf fyrir JetBlue. Þetta hefði verið gert til að forðast hagsmunaárekstra enda væri JetBlue skráð fyrirtæki. Hann segist þó meðvitaður um að hann sé ennþá kynntur sem stjórnarmaður á heimasíðu WOW og líka í úboðsgögnum tengdum skuldabréfaútgáfu WOW.

Því fer þó fjarri að Baldanza hafi sagt slitið við WOW því að hans sögn situr hann ennþá fundi og sinnir ráðgjafastörfum fyrir íslenska flugfélagið enda hafi hann verið eini stjórnarmeðlimurinn með reynslu af flugrekstri. Hann bendir jafnframt á að stjórnarseta í einkafyrirtæki eins og WOW sé á margan hátt öðruvísi en í skráðum félögum.

Aðspurður um niðurstöður skuldabréfaútboðs WOW air þá segir Baldanza það jákvætt að fá inn aukið fé í fyrirtækið því flugrekstur sé í eðli sínu fjárfrekur og WOW sé í mikilvægum stækkunarfasa. Hann viðurkennir þó að það hafi ekki verið nógu gott að útboðskynningin hafi verið gerð opinber eins og raun bar vitni. Bendir hann til að mynda á að nú þekki stjórnendur Icelandair betur til rekstrar WOW en áður.

Morgunblaðið sagði frá því í morgun að samkvæmt heimildum blaðsins þá skuldar WOW air Isavia lendingagjöld upp á allt að 2 milljarða króna. Baldanza staðfestir að hann þekki til skuldar við Keflavíkurflugvöll en að hann hafi ekki vitað af fréttaflutningi um málið. Þess má jafnframt geta að varaformaður stjórnar Isavia, Matthías Imsland, er einn af stofnendum WOW air og var hluti af eigandahópi flugfélagsins í upphafi.