Hefur tíma fyrir bæði Íslandspóst og Isavia

Ingimundur Sigurpálsson fullyrðir að hann myndi segja sig frá forstjórastarfinu í Íslandspósti eða stjórnarformennskunni í Isavia ef hann teldi sig ekki hafa tíma og getu fyrir bæði verkefnin.

Ingimundur Sigurpálsson er stjórnarformaður Isavia og forstjóri Íslandspósts. Myndir: Isavia

Ríkissjóður veitti Íslandspósti hálfs milljarðs króna lán í síðustu viku. Á vef stjórnarráðsins segir að ástæðan sé meðal annars sú að þrátt fyrir aukna lántöku fyrirtækisins undanfarin ár þá sé þörf á meira lausafé til að standa undir skuldbindingum næstu mánuðina og fyrirsjáanlegum taprekstri á yfirstandandi ári. Ingimundur Sigurpálsson er forstjóri Íslandspósts og hefur hann gegnt stöðunni í bráðum fjórtán ár. Samhliða starfi sínu fyrir Íslandspóst er Ingimundur stjórnarformaður í Isavia, einu stærsta fyrirtæki landsins, sem nú skipuleggur uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli fyrir tugi milljarða króna.

Aðspurður um hvort hann telji sig hafa nægan tíma og getu til að sinna báðum þessum verkefnum þá svarar Ingimundur því játandi. „Ef svo væri ekki, þá segði ég mig frá öðru hvoru verkefninu.“

Túristi leitaði álits formanna þingflokkanna í gær á stöðu Ingimundar í ljósi tapreksturs Íslandspósts og umfangs Isavia. Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki, sagðist enga ástæðu til annars en að bera full traust til stjórnformanns Isavia. Aftur á móti sagðist Gunnar Bragi Sveinsson, Miðflokki, setja spurningamerki við stöðu Ingimundar. „Það getur verið að unnt sé að sinna þessu hvoru tveggja en ljóst að rekstur Íslandspósts hefur verið slæmur og því eðlilegt að spyrja hvort hann þurfi meiri athygli eða fyrirtækið nýja stjórnendur.” Aðspurður sagði Ólafur Ísleifsson, Flokki fólksins, að málið blasi þannig við sér að kannski væri vert að athuga hvort rétt væri að takmarka möguleika forráðamanna í ríkisgeiranum til að taka að sér viðamikil aukastörf. Laun Ingimundar fyrir stjórnarsetuna hjá Isavia nema 4,7 milljónum á ári.

Stjórn Isavia er samansett af fulltrúum þingflokkanna og er Ingimundur skipaður af Sjálfstæðisflokknum. Eins og Túristi hefur áður rætt þá eru stjórnir ríkisfyrirtækjanna sem eiga og reka flughafnirnar í nágrannalöndunum ekki skipaðar pólitískt.