Hluturinn í Primera air metinn einskis virði

Verðmæti 84% hlutar í flugfélagi Andra Más Ingólfssonar er 0 evrur í ársreikningi fyrir síðasta ár. Flugfélagið hefur stóraukið starfsemi sína undandarin misseri.

Tölvuteikning af einnig þeirra nýju flugvéla sem Primera Air hefur pantað. Mynd: Primera Air

Umsvif Primera air takmarkast ekki lengur við sólarlandaflug með viðskiptavini ferðaskrifstofa sem heyra undir Primera Travel Group og er í eigu Andra Más Ingólfssonar. Í dag er flugfélagið nefnilega að hasla sér völl í áætlunarflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku og býður upp á reglulegar ferðir frá bæði London og París til New York, Boston, Washington DC og Toronto. Á næsta ári bætist áætlunarflug til þessara stórborga frá Berlín, Frankfurt og Madríd.

Þrátt fyrir þennan mikla vöxt þá er flugfélagið metið á 0 evrur af eiganda og stjórn félagsins. Þetta kemur fram í ársreikningi móðurfélagsins PA Holding sem heldur utan um 84% hlut Andra Más í Primera air. Í skýringu í ársreikningi segir að eignarhlutar PA Holding í dótturfélögum séu færðir í samræmi við hlutdeild félagsins í eigin fé þeirra. Ársfundir félaganna tveggja voru haldnir 30. og 31. ágúst.

Endurskoðendur Primera air fjalla sérstaklega um þessa stöðu í athugasemd í ársreikningi Primera air. Benda þeir á að í lok árs hafi skammtímaskuldir verið um milljarði króna hærri en sem nemur veltufjáreignum. Þessi neikvæða staða er sögð geta kastað rýrð á rekstrarhæfi félagsins. Það er hins vegar mat stjórnar Primera air að arðsemi muni aukast og félagið geti áfram fengið aðstoð eiganda við að standa við skuldbendingar sínar. Stjórnin væntir þess einnig að flugfélagið muni innleysa umtalsverðan hagnað í apríl á næsta ári sem tengist sölu og endurleigusamningum á nýjum Boeing MAX þotum.

Þess má geta að Túristi leitaði skýringa á stöðu Primera air hjá framkvæmdastjóra flugfélagsins en svar hefur ekki fengist. Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að hagnaður af rekstri Primera air í fyrra hafi numið 105 milljónir króna. Sú jákvæða afkoma virðist þó skrifast á væntingar um fyrrnefndan söluhagnað af flugvélum sem verða fyrst afhentar í vor.