Kynna sér ferðaþjónustu Nýsjálendinga

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, er nú stödd á Nýja-Sjálandi ásamt ferðamálastjóra og föruneyti.

Íslenski hópurinn ásamt nýsjálenskum fararstjórum sínum.

„Ferðaþjónustan hér á Nýja-Sjálandi hefur vaxið hratt og hún líkist á margan hátt þeirri íslensku. Í báðum löndum byggir greinin til að mynda mikið á náttúrunni, hér er jarðhiti mikið nýttur og hvalaskoðun vinsæl. Nýsjálendingar eru líka fámenn þjóð í stóru landi og viðfangsefni þeirra því á margan hátt lík okkar. Við vitum að þeim hefur tekist að leysa mörg mál sem tengjast greininni og við erum hingað komin til að læra af þeim,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri. Hann er nú staddur á Nýja-Sjálandi ásamt Þórdísi Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála og fleira af forsvarsfólki ferðaþjónustunnar. Þar á meðal Jóhannesi Þór Skúlasyni framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar og Óskari Jósefssyni frá Stjórnstöðinni.

„Í gegnum árin hefur verið horft töluvert til Nýja Sjálands og við höfum nú þegar tekið upp ýmislegt. Vakinn, gæðakerfi ferðaþjónustunnar, byggir á nýsjálenskri fyrirmynd og það gerir líka verkefni okkar um hvernig megi auka áreiðanleika gagnanna sem við vinnum með. Kannanir á þolmörkum ferðamannastaða eru líka sóttar hingað. Það er því margt sem við getum lært og þeir, af örlæti sínu, settu saman áhugaverða dagskrá sem hófst á mánudag og lýkur á föstudag,“ segir Skarphéðinn Berg um aðdraganda ferðarinnar. „Við vorum með hugmyndir og tillögur og þeir sínar og út frá þessu var búin til þessi dagskrá. Við höfum kynnt okkur stjórnkerfið í ferðaþjónustunni, gjaldtökumál, áhrif deilihagkerfisins og heimsótt hluta af þeim stöðum þar sem fjöldaferðamennska er sögð orðin vandamál.“

Í Facebook færslu í dag segir Þórdís Kolbrún að hópurinn hafi meðal annars hitt ráðherra ferðamála og nýsköpunar á Nýja-Sjáland en líka embættismenn, sveitastjórnarfólk og forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja. „Oft eru samtölin eins og maður sé staddur á fundi heima á Íslandi. Þau eru komin langt á ýmsum sviðum en eiga eftir að leysa úr mörgu alveg eins og við. Þannig má segja að ekkert land sé í raun búið að finna út úr þessu öllu saman. En áfram höldum við, með metnað og framsýni að leiðarljósi – þess vegna erum við hér,“ segir ráðherrann á Facebook.