Leiðakerfi íslensku flugfélaganna keimlík

Samruni Icelandair og WOW air mun ekki vera í pípunum eins og er. Staðan gæti þó breyst og ef það gerist þá þyrfti Icelandair að bæta fáum áfangastöðum við leiðakerfi sitt til að þjónusta farþega beggja félaga.

pittsburgh a
Pittsburgh, fæðingaborg Andy Warhol, er ein af þeim átta borgum sem WOW air er eitt um áætlunarflugið til. Mynd: Visit Pittsburgh

Ókyrrðin í kringum WOW air síðustu vikur hefur ekki farið fram hjá neinum og óvissa ríkir um framtíð flugfélagsins. Í dag eða á morgun er þó von á tilkynningu frá forsvarsmönnum flugfélagsins og þá skýrist staðan vonandi. Þangað til munu vangaveltur um örlög félagsins halda áfram og einn af þeim möguleikum sem nefndur hefur verið er samruni við Icelandair þrátt fyrir að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafi vísað þeirri hugmynd frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Yfirtaka Icelandair á hluta af rekstri WOW air hefur líka verið nefnd sem möguleiki og er þá litið til þess þegar Iceland Express varð hluti af WOW air fyrir sex árum síðan. Þá tók WOW air við öllum farþegaskuldbindingum Iceland Express og stórum hluta af starfsfólki. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW, hefur sagt að þessi yfirtaka hafi verið vendipunktur í rekstri WOW.

Hvort álíka leið verði farin núna er of snemmt að segja til um og vissulega er flækjustigið umtalsvert því umsvif flugfélaganna í dag eru miklu meiri. Það er þó staðreynd að leiðakerfi Icelandair og WOW air passa í raun mjög vel saman. Af þeim 37 áfangastöðum sem WOW air mun fljúga til í haust og vetur þá eru til að mynda 22 hluti af leiðakerfi Icelandair á einn eða anna hátt. Fimm af þeim borgum sem út af standa verða aðeins hluti af áætlun WOW air fram í októberlok og til Edinborgar og Barcelona er WOW air í samkeppni við erlend flugfélög. Í heildina er WOW air því eitt um vetrarflug héðan til Montreal, Pittsburgh, Detroit, St. Louis, Salzburg, Mílanó, Los Angeles og Nýju-Delí. Samtals átta borgir og þar af flýgur Icelandair til Montreal og Mílanó en þó ekki yfir veturinn.

Hvort samruni eða yfirtaka verður niðurstaðan eða að rekstur WOW haldist að mestu óbreyttur mun væntanlega koma í ljós á næstu sólarhringum.