Lúxemburg hverfur úr Leifsstöð

Flugfélag heimamanna í Lúxemburg ætlar ekki að halda áfram að fljúga til Íslands á næsta ári.

Frá Lúxemburg. MYND: ROWAN HEUVEL / UNSPLASH

Eitt þeirra erlendu flugfélaga sem bætti Íslandi við leiðakerfi sitt í ár var Luxair sem flaug hingað frá Findel flugvelli í Lúxemburg. Sú flugstöð er mörgum Íslendingum að góðu kunn enda var Icelandair, og þar á undan Loftleiðir, mjög umsvifamikið í borginni. Var hún þá stundum nefnd „hjarta Evrópu“ í auglýsingum íslensku flugfélaganna sem birtust í bandarískum blöðum. Icelandair hætti hins vegar að fljúga til Findel árið 1999 og flutti sig yfir til Frankfurt í Þýskalandi.

Beinar flugsamöngur milli Íslands og Lúxemburg hafa því verið litlar síðustu 2 áratugi en úr því var bætt í sumar þegar Luxair bauð upp á reglulegt flug til Íslands í maí og júní. Talsmaður flugfélagsins staðfestir hins vegar við Túrista að þessum ferðum verði ekki áframhaldið næsta sumar. Ekki fást svör um ástæður þessa en sem fyrr segir voru Íslandsferðir Luxair fáar í sumar. Af gistináttatölum Hagstofunnar að dæma þá hafði þetta beina flug hingað frá Lúxemburg þónokkur áhrif á straum ferðamanna þaðan því gistinætur íbúa smáríkisins tvöfölduðust hér í maí og júní í samanburði við sömu mánuði í fyrra.