Meiri líkur á tilkynningu frá WOW á morgun en í dag

Forsvarsfólk WOW air lofaði fjölmiðlum upplýsingum nú í vikulok um gang mála hjá flugfélaginu. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi, segist sjá í mark í bréfi sem sent var starfsfólki í gær.

Mynd: WOW air/Friðrik Örn Hjaltested

Spennan í kringum sölu á skuldabréfum WOW air hefur verið mikil allt frá því að kynning á útboðinu varð opinber fyrir mánuði síðan. Allan þann tíma hefur fyrirtækið ekki gefið út formlegar tilkynningar um gang mála en von er á einni slíkri nú í vikulok eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Aðspurð um nákvæmari tímasetningu þá svarar Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, því til að vikulok séu á laugardegi. Af því svari að dæma er ólíklegt að upplýsingar um stöðuna muni berast nú í lok vinnuviku.

Þó formlegar tilkynningar hafi ekki borist frá flugfélaginu síðustu vikur þá fer því fjarri að ekkert hafi heyrst í Skúla Mogensen forstjóra og eina eiganda flugfélagsins. Og sú pressa sem nú er komin á svör frá flugfélaginu má að hluta til rekja til þess að á fimmtudaginn í síðustu viku hafði Bloomberg það eftir Skúla að von væri á upplýsingum um stöðu skulabréfaútboðsins öðru hvoru megin við síðustu helgi. Þessi vika hefur svo liðið án formlegra upplýsinga en í gær sendi Skúli tölvupóst á starfsfólk þar sem fram kom að hann sjái í mark í verkefninu.

Forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun er á sama veg. „Skúli nálgast endamarkið“ segir í fyrirsögn og samkvæmt heimildum blaðsins eru komnir kaupendur að skuldabréfum í WOW upp á um 5,8 milljarða króna en gert er ráð fyrir að útboðið nemi í heildina um 6,5 milljörðum. Upphaflega var ætlunin að selja skuldabréf í WOW fyrir 6 til 12 milljarða króna. Áður hefur komið fram að vextir á skuldabréfunum verða um 9 prósent. Auk þess fá kaupendur bréfanna kauprétt á hlutafé með allt að fjórðungs afslætti en til stendur að skrá WOW air í kauphöll innan tveggja ára.

Nýr meðeigandi

Allt frá því að meðstofnendur Skúla, þeir Baldur Oddur Baldursson og Matthías Imsland, fóru út úr hlutahafahópi WOW air hefur Skúli átt fyrirtækið einn. Síðastliðið ár hefur hann hins vegar ítrekað sagst vera að ígrunda að taka inn meðeigendur. Ástæðan væri ekki fjárþörf heldur aðallega sú staðreynd að umfangið væri það mikið að áframhaldandi stækkun væri dýr. „Þá er annað hvort að hægja á rekstrinum eða taka inn aukið hlutafé til að hafa sterkari stoðir,” sagði Skúli í viðtali við Túrista í vor. Nú gæti nýr meðeigandi verið fundinn því samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er unnið að því að fá inn fjárfesti að flugfélaginu sem myndi leggja því til nýtt hlutafé upp á tugi milljóna evra samhliða því að skuldabréfaútboðið verður klárað. Það þýðir væntanlega að skuldabréfaútboðið byggi á því að  hlutafjáraukningin gangi í gegn. Hvort það er raunin eða ekki kemur væntanlega í ljós þegar WOW sendir út fréttatilkynningu nú í vikulok.

Uppfært: Stuttu eftir birtingu greinarinnar sendi WOW út tilkynningu þar sem fram kom að kaupendur væru komnir að skuldabréfum upp á rúma 6 milljarða króna.