Metár í ferðaþjónustu

Ríflega 1,3 milljarður manna fór í ferðalag á milli landa í fyrra sem er meira en nokkru sinni fyrr. Mikilvægi Kínverjar í ferðaþjónustu heimsins eykst stöðugt.

ferdamenn cataratas do iguacu brazil henrique felix
Ferðafólk er fjölmennt víða, til að mynda hér við Cataratas do Iguaçu fossana í Brasilíu. Mynd: Henrique Felix / Unsplash

Fjöldi alþjóðlegra ferðamanna jókst um 7 prósent í fyrra og leita þarf aftur til ársins 2010 til að finna á álíka vöxt á milli ára. Tekjur af ferðaþjónustu numu 1,6 trilljónum bandaríkjadollara á síðasta ári og þar með er ferðaþjónustu orðin þriðja stærsta útflutningsgreinin á heimsvísu samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá ferðamálaráði Sameinuðu þjóðanna. Sendur greinin nú undir 7 prósent af heildarútflutningi í heiminum.

Í heildina fóru rétt rúmlega 1,3 milljarður manna í ferðalag á milli landa í fyrra og hafa ferðamennirnir aldrei verið svona margir. Fjölgaði þeim um 84 milljónir frá árinu 2016. Hlutfallslega var vöxturinn mestur í Evrópu og Afríku en þó mismunandi mikill innan álfanna.

Ársskýrsla ferðamálaráðs SÞ fyrir síðasta ár sýnir að Kínverjar standa undir um fimmtungi af heildarveltu ferðaþjónustunnar og hefur vægi ferðamanna frá Kína aukist hratt síðustu ár. Það er þó engin breyting á því hvaða land nýtur mestrar hylli því Frakkland situr í efsta sætinu enn eitt árið með um 83 milljónir ferðamanna. Í öðru sæti er Spánn sem komst upp fyrir Bandaríkin að þessu sinni.

Útlit er fyrir að nýtt ferðamannamet verði sett í ár því fyrstu fjóra mánuði ársins fjölgaði ferðafólki um 6 prósent.