Metfjöldi hjá WOW air

413 þúsund farþegar flugu með íslenska lággjaldaflugfélaginu í ágúst. Aldrei áður hafa þeir verið jafn margir í einum mánuði.

Mynd: WOW air

Framboðið hjá WOW air í nýliðnum mánuði var um 30 prósent meira en á sama tíma í fyrra og farþegunum fjölgaði álíka mikið eða um 28 prósent. Í heildina voru farþegarnir 413 þúsund í ágúst sem er nýtt met hjá WOW air og reyndar er þetta aðeins í annað sinn sem félagið flytur fleiri en 400 þúsund farþega í einum mánuði. Hlutfall tengifarþega hefur aukist og var það 61 prósent í ágúst miðað við 43 prósent á sama tíma í fyrra. Það er vísbending um að WOW air hafi flutt hlutfallslega færri ferðamenn til landsins að þessu sinni.

Að jafnaði voru 93 af hverjum 100 sætum í þotum WOW air skipuð farþegum í ágúst samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Það er bæting um þrjú prósentustig og ástæða þess að nýtingin batnar þó farþegunum hafi fjölgað hlutfallslega minna en framboðinu er sú að sætanýtingin er reiknuð út frá fluglengd. Sex tíma flug til Boston vegur þá tvöfalt þyngra en rúmlega 3 tíma ferð til Brussel.

Síðustu misseri hefur WOW air haft þann háttinn á að senda út mánaðarlegar farþegatölur eftir að Icelandair hefur birt sínar en nú var sá háttur ekki hafður á. Von er á sambærilegum upplýsingum frá Icelandair fyrir ágúst á fimmtudaginn.