Mikilvægt að samkeppni í flugi sé tryggð áfram

Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, segir niðurstöðuna í skuldabréfaútboði WOW air vera ánægjuleg tíðindi.

Mynd: WOW air

„Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða. Með fjármögnun Wow heldur sú mikla samkeppni sem verið hefur í flugi til og frá landinu áfram,” segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, um þau tíðindi að skuldabréfaútboði WOW air er nú lokið. „Umfangsmiklar og tíðar flugsamgöngur hafa verið undirstaðan í vexti ferðaþjónustunnar á Íslandi og því mikilvægt að þetta verkefni sé í höfn,” bætir Skarphéðinn við.

Seinni partinn í dag tilkynntu forsvarsmenn WOW air að skuldabréfaútboðinu, sem staðið hefur í rúman mánuð, sé lokið. Í heildina seldust skuldabréf fyrir 6,4 milljarða króna og stendur til að selja til viðbótar bréf upp á nærri 1,3 milljarð króna samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá WOW.

Þar segir að það hafi verið erlendir og innlendir aðilar sem tóku þátt en ekki liggur fyrir hvaða íslensku fjárfestar tóku þátt. Forsvarsmenn WOW ætla heldur ekki að veita nein viðtöl að svo stöddu. Í tilkynningu er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW, að niðurstaða útboðsins sé mikil hvatning til að efla enn frekar alþjóðlegt flug og ferðaþjóustu hér á landi.

Næstu skref í fjármögnun WOW air eru skráning hlutabréfa félagsins innan 12 til 18 mánaða bæði hér heim og í útlöndum.