Mjúk lending undir bönkunum komin

WOW air flutti um hálfa milljón ferðamanna til landsins í fyrra og nú er rætt um aðkomu bankanna að fjármögnun félagsins. Lán þeirra til ferðaþjónustufyrirtækja námu 223 milljörðum um síðustu áramót.

wow radir
Mynd: WOW air

„Fjármálaráðherra hefur enga vitneskju um það hvort ríkisbankar ætli að taka þátt og hefur enga aðkomu að slíkum ákvörðunum eins og lög gera ráð fyrir,” sagði í svari Svanhildar Hólm Valsdóttur, aðstoðarkonu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðaherra, um meinta aðkomu ríkisbanka að skuldabréfakaupum í WOW air í frétt Túrista á laugardag. Þar var sagt frá orðrómi um að forsvarsmenn flugfélagsins hafi leitað til íslensku bankanna í von um þátttöku þeirra í skuldabréfaútgáfunni sem staðið hefur yfir síðustu vikur. Í frétt Fréttablaðins í dag kemur svo fram að heimildir blaðsins hermi að bankastjórar hafi fundað með ráðgjöfum og stjórnendum WOW air í gær til að tryggja að lágmarksstærð yfirstandandi skuldabréfaútboðs félagsins, sem er jafnvirði um 5,5 milljarða króna, verði náð.

Af þessum fréttum að dæma þá er ljóst að staðan í dag er allt önnur en sú sem Fréttablaðið greindi frá fyrir 12 dögum síðan. Þá sló blaðið því upp á forsíðu að Skúli hefði tryggt sér milljarða króna og að nokkrir erlendir fjárfestar hefðu þegar skráð sig fyrir stórum hluta skuldabréfaútboðsins. Nú er staðan hins vegar sú að íslenskt fjármagn þarf til svo hægt sé að klára fjármögnunina.

Hvort bankarnir kaupi skuldabréf í WOW eða veiti flugfélaginu lán á elleftu stundu á eftir að koma í ljós en hagsmunir eru miklir. Um síðustu áramót námu lán til greinarinnar um 223 milljörðum króna í lánabókum Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka. Það jafngildir um 15 prósentum af heildarlánum bankanna til fyrirtækja samkvæmt árskýrslu Fjármálaeftirlitsins. Mikilvægi WOW air fyrir ferðaþjónustuna er líka mikið því í fyrra flutti félagið um hálfa milljón ferðamanna til landsins eða um einn af hverjum fjórum sem hingað komu. Til samanburðar nam fjöldinn hjá Icelandair um 730 þúsund og félögin tvö standa því undir ríflega helmingi af ferðum útlendinga til Íslands.