Segir óvissuna ekki hafa komið niður á sölu hótelanna

Undirbúningur á sölu hótela Icelandair er langt kominn. Umrótið sem skuldabréfútboð WOW air olli hefur ekki haft neina áhrif á ferlið að mati forstjóra Icelandair Group.

Frá Canopy hótelinu í Reykjavík sem tilheyri Icelandair hótelunum. Mynd: Icelandair hótelin

Í vor gáfu stjórnendur Icelandair Group það út að hótelhluti fyrirtækisins væri til sölu. Um er að ræða næststærsta hótelfyrirtæki landsins sem telur samtals 17 gististaði með hátt í tvö þúsund herbergi. Við þetta bætist rekstur sumarhótelkeðjunnar Hótel Edda. Þá stefnir fyrirtækið á opnun nýs hótels við Austurvöll í samstarfi við Hilton á næsta ári.

„Gagnasöfnun og undirbúningsvinna ráðgjafa félagsins, annars vegar Íslandsbanka og hins vegar breska fyrirtækisins HVS Hodges Ward Elliot, sem sérhæfir sig í viðskiptum með hótel, er langt komin og síðan fer formlegt söluferli í gang,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, um stöðu mála. Hann segir ekki horft til þess að ganga frá sölunni í ár. „Við erum ekki að horfa á neina sérstaka dagsetningu í þessum efnum. Það er mikill áhugi á félaginu og mikilvægt að vanda til verka. Eins og kom fram í tilkynningu okkar um söluna á sínum tíma erum við að horfa til þess að hámarka virði eignanna á sama tíma og horft verður til hagsmuna íslenskrar ferðaþjónustu, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila,“ svarar Bogi.

Fyrir rúmum fjórum mánuðum, þegar tilkynnt var að Icelandair hótelin yrðu seld, var spennan í kringum íslensku flugfélögin miklu minni en hún hefur verið síðustu vikur. Og óhætt er að segja að skuldabréfaútboð WOW air, sem fór fram fyrir opnum tjöldum, hafi ollið skjálfta í íslenskri ferðaþjónustu því hátt í fjórði hver ferðamaður sem hingað kemur flýgur með WOW.

Bogi segir að þetta ástand hafi ekki seinkað söluferlinu né lækkað væntingar um söluverð hótelanna. „Hins vegar hefur þessi atburðarás ekki farið framhjá mönnum. Það er alltaf ákveðin óvissa í spám um fjölda ferðamanna til Íslands. Ein breyta í þeirri jöfnu eru flugsamgöngur til landsins og fregnir af fjárhagslegum erfiðleikum flugfélags auka á þá óvissu,“ segir Bogi.