Skiptar skoð­anir um tengsl vara­for­manns stjórnar Isavia við WOW

Matthías Imsland er einn af stofnendum WOW air. Ekki er liggur ljóst fyrir hvort flugfélagið skuldi lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli eða ekki.

Matthías Imsland er varaformaður stjórnar Isavia og fyrrum meðeigandi og framkvæmdastjóri hjá WOW air. Myndir: Stjórnarráðið og Isavia

„Við gefum ekki upplýs­ingar um stöðu einstakra viðskipta­vina Isavia,“ segir í svari Guðjóns Helga­sonar, upplýs­inga­full­trúa Isavia, við fyrir­spurn um hvort frétt Morg­un­blaðsins á laug­ardag, þar sem haldið er fram að WOW air skuldi um 2 millj­arða króna í lend­inga­gjöld á Kefla­vík­ur­flug­velli, sé rétt. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi flug­fé­lagsins, vísar frétt­inni hins vegar á bug og segir flug­fé­lagið ekki skulda yfir 2 millj­arða. Svan­hvít Frið­riks­dóttir, upplýs­inga­full­trúi WOW, ítrekar þessa upphæð í svari sínu til Túrista þar sem spurt var hvort WOW air skuldi lend­inga­gjöld á Kefla­vík­ur­flug­velli. Það er því ekki ljóst hvort skuldin er einhver eða engin en Ben Bald­anza, fyrrum stjórn­ar­maður WOW, stað­festi þó við Túrista á laug­ardag að hann þekkti til skuldar flug­fé­lagsins við Kefla­vík­ur­flug­völl.

Hefur viðkom­andi hafi beitt sér sérstak­lega fyrir þetta fyrir­tæki?

Isavia er í eigu hins opin­bera og er stjórn fyrir­tæk­isins skipuð af Alþingi. Flokk­arnir skipa sína full­trúa í stjórnina og er Matthías Imsland full­trúi Fram­sókn­ar­flokksins. Matthías kom að stofnun WOW air og var einn af eigendum þess í upphafi og líka fram­kvæmda­stjóri rekstr­ar­sviðs flug­fé­lagsins. Túristi hefur sent fyrir­spurn á þing­flokks­for­menn allra þeirra flokka sem sæti eiga á þingi og spurt hvort þeir telji þessi tengsl Matth­íasar við WOW air vera óheppileg. Sérstak­lega nú í ljósi mögu­legrar skuldar WOW við Isavia. Guðmundur Andri Thorsson, þing­maður Samfylk­ing­ar­innar, segir í svari sínu að hann telji að svo sé. „Ég tel að betur færi á því að stjórn­ar­menn Isavia hafi ekki slík tengsl við flug­fé­lögin, burtséð frá hugs­an­legri fyrir­greiðslu,” segir Guðmundur Andri.

Samfylk­ingin á ekki full­trúa í stjórn Isavia en það á hins vegar Miðflokk­urinn. „Já, ég tel þessi tengsl mjög óheppileg og spurning hvort viðkom­andi hafi beitt sér sérstak­lega fyrir þetta fyrir­tæki,” segir Gunnar Bragi Sveinsson frá Miðflokknum. „Hefur viðkom­andi líst sig vanhæfan? Er verklags­reglum fylgt?” spyr Gunnar Bragi jafn­framt. Ólafur Ísleifsson, Flokki fólksins, segir að ef vara­formaður stjórnar Isavia hafi tengsl við máls­aðila þá hljóti á fundum að eiga við almennar vanhæfis­reglur sem girða fyrir þátt­töku í ákvörð­unum þegar svo ber undir.

Þarf meira til að valda vanhæfi

Birgir Ármannsson, Sjálf­stæð­is­flokki, segir enga ástæðu til að ætla að einhver atriði varð­andi stjórn Isavia fari í bága við lög og reglur. „Ekkert sem komið hefur fram opin­ber­lega gefur mér tilefni til að draga einhverjar álykt­anir um slíkt. Það að stjórn­ar­maður hafi á árum áður unnið fyrir flug­félag veldur t.d. ekki sjálf­krafa vanhæfi. Þar þarf meira til að koma. Ef fram koma nýjar upplýs­ingar um að einhver tiltekin mál séu ekki í lagi að þessu leyti hjá Isavia þarf auðvitað að fjalla um það og taka afstöðu til þeirra álita­mála á réttum vett­vangi,” segir Birgir. Hér ber að árétta að Matthías starfaði ekki aðeins hjá WOW air því hann var jafn­framt einn af eigendum flug­fé­lagsins.

Stjórn­ar­flokk­arnir þrír mynda meiri­hluta í stjórn Isavia og Bjarkey Olsen Gunn­ars­dóttir, formaður þing­flokks VG, vísar í svari sínu á almenn lög og og reglur um stjórn­ar­setu líkt og Birgir. „Ég veit ekki annað en að þeim sé fylgt í þessu tilviki. Hvað snertir tengsl viðkom­andi nú hef ég ekki hugmynd um, en tel ekki að það skapi sjálf­krafa vanhæfi að hafa átt eitt­hvað í félaginu áður,” segir Bjarkey.

Þess má geta að Túristi hefur lagt þá spurn­ingu fyrir Matthías Imsland hvort hann víki af fundum þegar málefni WOW air eru rædd í stjórn Isavia. Ekki hefur borist svar en því verður gerð skil þegar það berst. Sömu sögu er að segja af svörum þing­flokks­for­manns Fram­sóknar.

Athuga hvort takmarka ætti auka­störf forráða­manna í ríkis­geir­anum

Sem fyrr segir er Matthías full­trúi Fram­sóknar í stjórn Isavia á meðan Ingi­mundur Sigurpálsson, forstjóri Ísland­s­póst, situr í stjórn­inni í umboði Sjálf­stæð­is­flokksins. Ingi­mundur er jafn­framt formaður stjórn­ar­innar en í síðustu viku veitti ríkis­sjóður Ísland­s­pósti 500 milljón króna lán til að styrkja lausa­fjár­stöðu fyrir­tæk­isins. Af þeim sökum spurði Túristi full­trúa þing­flokk­anna jafn­framt hvort þeir teldu Ingi­mund geta sinnt stjórn­ar­for­mennsku í einu stærsta fyrir­tæki landsins á sama tíma og staða Ísland­s­pósts, sem hann veitir forstöðu, er jafn erfið og raun ber vitni. Birgir Ármannsson frá Sjálf­stæð­is­flokki segist ekki í vafa um að Ingi­mundur geti sinnt báðum þessum verk­efnum. „Ég hef enga ástæðu til annars en að bera fullt traust til stjórn­ar­for­manns Isavia,” segir Birgir en þess má geta að sonur Ingi­mundar er fram­kvæmda­stjóri þing­flokks Sjálf­stæð­is­manna.

Gunnar Bragi setur hins vegar spurn­inga­merki við stöðu Ingi­mundar. „Það getur verið að unnt sé að sinna þessu hvoru tveggja en ljóst að rekstur Ísland­s­pósts hefur verið slæmur og því eðli­legt að spyrja hvort hann þurfi meiri athygli eða fyrir­tækið nýja stjórn­endur.” Aðspurður um stöðu Ingi­mundar segir Ólafur Ísleifsson að málið blasi þannig við að kannski væri vert að athuga hvort rétt væri að takmarka mögu­leika forráða­manna í ríkis­geir­anum til að taka að sér viða­mikil auka­störf.

Túristi hefur jafn­framt sent fyrir­spurn til Ingi­mundar en ekki hefur fengist svar.