Samfélagsmiðlar

Skiptar skoðanir um tengsl varaformanns stjórnar Isavia við WOW

Matthías Imsland er einn af stofnendum WOW air. Ekki er liggur ljóst fyrir hvort flugfélagið skuldi lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli eða ekki.

Matthías Imsland er varaformaður stjórnar Isavia og fyrrum meðeigandi og framkvæmdastjóri hjá WOW air.

„Við gefum ekki upplýsingar um stöðu einstakra viðskiptavina Isavia,“ segir í svari Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, við fyrirspurn um hvort frétt Morgunblaðsins á laugardag, þar sem haldið er fram að WOW air skuldi um 2 milljarða króna í lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli, sé rétt. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi flugfélagsins, vísar fréttinni hins vegar á bug og segir flugfélagið ekki skulda yfir 2 milljarða. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, ítrekar þessa upphæð í svari sínu til Túrista þar sem spurt var hvort WOW air skuldi lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli. Það er því ekki ljóst hvort skuldin er einhver eða engin en Ben Baldanza, fyrrum stjórnarmaður WOW, staðfesti þó við Túrista á laugardag að hann þekkti til skuldar flugfélagsins við Keflavíkurflugvöll.

Hefur viðkomandi hafi beitt sér sérstaklega fyrir þetta fyrirtæki?

Isavia er í eigu hins opinbera og er stjórn fyrirtækisins skipuð af Alþingi. Flokkarnir skipa sína fulltrúa í stjórnina og er Matthías Imsland fulltrúi Framsóknarflokksins. Matthías kom að stofnun WOW air og var einn af eigendum þess í upphafi og líka framkvæmdastjóri rekstrarsviðs flugfélagsins. Túristi hefur sent fyrirspurn á þingflokksformenn allra þeirra flokka sem sæti eiga á þingi og spurt hvort þeir telji þessi tengsl Matthíasar við WOW air vera óheppileg. Sérstaklega nú í ljósi mögulegrar skuldar WOW við Isavia. Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í svari sínu að hann telji að svo sé. „Ég tel að betur færi á því að stjórnarmenn Isavia hafi ekki slík tengsl við flugfélögin, burtséð frá hugsanlegri fyrirgreiðslu,“ segir Guðmundur Andri.

Samfylkingin á ekki fulltrúa í stjórn Isavia en það á hins vegar Miðflokkurinn. „Já, ég tel þessi tengsl mjög óheppileg og spurning hvort viðkomandi hafi beitt sér sérstaklega fyrir þetta fyrirtæki,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson frá Miðflokknum. „Hefur viðkomandi líst sig vanhæfan? Er verklagsreglum fylgt?“ spyr Gunnar Bragi jafnframt. Ólafur Ísleifsson, Flokki fólksins, segir að ef varaformaður stjórnar Isavia hafi tengsl við málsaðila þá hljóti á fundum að eiga við almennar vanhæfisreglur sem girða fyrir þátttöku í ákvörðunum þegar svo ber undir.

Þarf meira til að valda vanhæfi

Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki, segir enga ástæðu til að ætla að einhver atriði varðandi stjórn Isavia fari í bága við lög og reglur. „Ekkert sem komið hefur fram opinberlega gefur mér tilefni til að draga einhverjar ályktanir um slíkt. Það að stjórnarmaður hafi á árum áður unnið fyrir flugfélag veldur t.d. ekki sjálfkrafa vanhæfi. Þar þarf meira til að koma. Ef fram koma nýjar upplýsingar um að einhver tiltekin mál séu ekki í lagi að þessu leyti hjá Isavia þarf auðvitað að fjalla um það og taka afstöðu til þeirra álitamála á réttum vettvangi,“ segir Birgir. Hér ber að árétta að Matthías starfaði ekki aðeins hjá WOW air því hann var jafnframt einn af eigendum flugfélagsins.

Stjórnarflokkarnir þrír mynda meirihluta í stjórn Isavia og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks VG, vísar í svari sínu á almenn lög og og reglur um stjórnarsetu líkt og Birgir. „Ég veit ekki annað en að þeim sé fylgt í þessu tilviki. Hvað snertir tengsl viðkomandi nú hef ég ekki hugmynd um, en tel ekki að það skapi sjálfkrafa vanhæfi að hafa átt eitthvað í félaginu áður,“ segir Bjarkey.

Þess má geta að Túristi hefur lagt þá spurningu fyrir Matthías Imsland hvort hann víki af fundum þegar málefni WOW air eru rædd í stjórn Isavia. Ekki hefur borist svar en því verður gerð skil þegar það berst. Sömu sögu er að segja af svörum þingflokksformanns Framsóknar.

Athuga hvort takmarka ætti aukastörf forráðamanna í ríkisgeiranum

Sem fyrr segir er Matthías fulltrúi Framsóknar í stjórn Isavia á meðan Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspóst, situr í stjórninni í umboði Sjálfstæðisflokksins. Ingimundur er jafnframt formaður stjórnarinnar en í síðustu viku veitti ríkissjóður Íslandspósti 500 milljón króna lán til að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækisins. Af þeim sökum spurði Túristi fulltrúa þingflokkanna jafnframt hvort þeir teldu Ingimund geta sinnt stjórnarformennsku í einu stærsta fyrirtæki landsins á sama tíma og staða Íslandspósts, sem hann veitir forstöðu, er jafn erfið og raun ber vitni. Birgir Ármannsson frá Sjálfstæðisflokki segist ekki í vafa um að Ingimundur geti sinnt báðum þessum verkefnum. „Ég hef enga ástæðu til annars en að bera fullt traust til stjórnarformanns Isavia,“ segir Birgir en þess má geta að sonur Ingimundar er framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna.

Gunnar Bragi setur hins vegar spurningamerki við stöðu Ingimundar. „Það getur verið að unnt sé að sinna þessu hvoru tveggja en ljóst að rekstur Íslandspósts hefur verið slæmur og því eðlilegt að spyrja hvort hann þurfi meiri athygli eða fyrirtækið nýja stjórnendur.“ Aðspurður um stöðu Ingimundar segir Ólafur Ísleifsson að málið blasi þannig við að kannski væri vert að athuga hvort rétt væri að takmarka möguleika forráðamanna í ríkisgeiranum til að taka að sér viðamikil aukastörf.

Túristi hefur jafnframt sent fyrirspurn til Ingimundar en ekki hefur fengist svar.

Nýtt efni
Veitingaþjónusta

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar.  Heildartalan yfir þá sem …

Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í lok október og síðan þá hafa þotur Easyjet flogið þessa leið tvisvar í viku en engin talning fer fram á fjölda ferðamanna á Akureyrarflugvelli öfugt við það sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli. Til að meta fjölda breskra ferðamanna í beina fluginu þarf því að styðjast við gistináttatölur Hagstofunnar en …

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …