Taka upp þráðinn með Tyrklandsferðir

Norræna ferðaskrifstofan Nazar gerði hlé á starfsemi sinni hér á landi í fyrra en boðar komu sína á markaðinn á ný. Þá jafnvel með Grikklandsferðir einnig.

nazar c
Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar. Myndir: Nazar

Sumarið 2014 hóf ferðaskrifstofan Nazar að selja sólarlandaferðir héðan til Antalya í Tyrklandi. Fyrsta árið flugu á þriðja þúsund Íslendingar með Nazar til Tyrklands og ennþá fleiri árið eftir. Hrina hryðjuverka og tilraun til valdaráns í landinu urðu hins vegar til þess að eftirspurn eftir Tyrklandsferðum snarminnkaði í hittifyrra. Í kjölfarið dró Nazar saman seglin hér á landi og hefur ekki boðið upp á Tyrklandsreisur héðan síðustu sumur.

Forsvarsfólk ferðaskrifstofunnar hefur þó ekki afskrifað íslenska markaðinn. „Við munum byrja að nýju á Íslandi frá og með sumrinum 2020. Við metum það sem svo að ennþá geri margir fyrirvara við austurhluta Miðjarðarhafsins jafnvel þó Tyrklandsferðir hafi náð vinsældum á ný meðal annarra Norðurlandaþjóða fyrr en við hefðum getað látið okkur dreyma um. Við trúum því að Ísland verði einnig á þeim stað þegar við byrjum á þarnæsta ári,“ segir Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar.

Að sögn Yamanlar þá hefur fjöldið Íslendinga ferðast með Nazar til Tyrklands frá Kaupmannahöfn síðustu sumur og segist hann ánægður með að ferðaskrifstofan eigi sér marga trygga viðskiptavini á Íslandi. „Við vonumst jafnframt til þess að geta boðið Íslendingum upp á nýjan áfangastað í Grikklandi en eigum eftir að finna lausn á fluginu þangað.“