Telur sig ekki þurfa að víkja af stjórnarfundum Isavia

Matthías Imsland er varaformaður stjórnar Isavia og jafnframt einn af stofnendum WOW air. Hann segist enga hagsmuni hafa fyrirtækinu í dag.

Stofnendur WOW air: Baldur Oddur Baldursson, Matthías Imsland og Skúli Mogensen. Mynd: WOW air

Þegar WOW air tók til starfa fyrir nærri sjö árum síðan þá var félagið í meirihlutaeigu Skúla Mogensen en aðrir hluthafar voru Baldur Oddur Baldursson og Matthías Imsland. Meðeigendur Skúla sinntu jafnframt framkvæmdastjórastöðum hjá WOW air en þeir létu svo af störfum árið 2012. Í dag er Matthías Imsland varaformaður stjórnar Isavia og í ljósi frétta Morgunblaðsins af skuldasöfnun WOW hjá Isavia þá leitaði Túristi viðbragða formanna þingflokkanna á stöðu Matthíasar.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í svari sínu að hann teldi að betur færi á því að stjórnarmenn Isavia hafi ekki slík tengsl við flugfélögin, burtséð frá hugsanlegri fyrirgreiðslu. [É]g tel þessi tengsl mjög óheppileg og spurning hvort viðkomandi hafi beitt sér sérstaklega fyrir þetta fyrirtæki,” sagði í svari Gunnars Braga Sveinssonar frá Miðflokknum. „Hefur viðkomandi líst sig vanhæfan? Er verklagsreglum fylgt?” bætti Gunnar Bragi við. Ólafur Ísleifsson, Flokki fólksins, segir að ef varaformaður stjórnar Isavia hafi tengsl við málsaðila þá hljóti á fundum að eiga við almennar vanhæfisreglur sem girða fyrir þátttöku í ákvörðunum þegar svo ber undir.

Aðspurður um hvort hann víki af stjórnarfundum Isavia þegar málefni WOW air ber á góma þá segir Matthías, í svari til Túrista, að hann telji sig ekki þurfa þess. „Í störfum mínum sem stjórnarmaður Isavia hef ég ávallt haft hagsmuni Isavia að leiðarljósi í allri minni vinnu. Ég hætti öllum afskiptum af WOW fyrir 6 árum síðan og hef síðan þá ekki haft neina hagsmuni af því fyrirtækinu og tel mig því ekki þurfa að víkja af fundum þegar málfefni þess félags eru til umræðu frekar en annarra flugfélaga.“​

Matthías er situr í umboði Framsóknarflokksins í stjórn Isavia. „Matthías er fulltrúi okkar vegna þekkingar hans, reynslu og kunnáttu í þessum málaflokki. Tengsl hans við WOW þekki ég ekki,“ segir í svari Þórunnar Egilsdóttur, þingflokksformanns Framsóknar, um stöðu Matthíasar.

Þess ber þó að geta að Skúli Mogensen hefur vísað á bug frétt Morgunblaðsins og segir flugfélagið aldrei hafa skuldað rúma 2 milljarða. Í frétt Morgunblaðsins var þó talað um skuld upp á „um 2 milljarða“. Ekki fást skýrari svör um stöðu mála frá WOW eða Isavia þar sem upplýsingafulltrúar fyrirtækjanna segjast ekki tjá sig um svona mál.

Matthías á líka sæti í stjórn Fríhafnarinnar, dótturfyrirtækis Isavia, og þiggur hann um 3,8 milljónir á ári fyrir stjórnarsetu í fyrirtækjunum tveimur.