Þær 59 borgir sem flogið verður til í vetur

Nokkrir nýir áfangastaðir bætast við úrvalið á Keflavíkurflugvelli í vetur en það detta líka nokkrir út.

Róm og Nýja Delí eru tvær af þeim borgum sem bætast við úrvalið á áfangastöðum á Keflavíkurflugvelli í vetur. Mynd: Christopher Czermak og Raghu Nayyar / Unsplash

Vetr­aráætlun flug­fé­lag­anna hefst í lok október og eins og staðan er núna þá verða í boði áætl­un­ar­ferðir til 59 erlendra borga auk flug­ferða Air Iceland Connect til Akur­eyrar. Fyrra­vetur voru borg­irnar 57 og úrvalið er því meira að þessu sinni og munar þar kannski mest um fyrsta flugið til Asíu því í desember fer WOW air jómfrú­ar­ferð sína til Nýju Delí í Indlandi. Auk þess verður í fyrsta sinn í vetur hægt að fljúga beint til Rómar og Mílanó á Ítalíu en ferð­irnar þangað hafa takmarkast við sumar­mán­uðina. Auk þess verður í fyrsta sinn flogið til banda­rísku borg­anna Detroit, St. Louis og Dallas. Í febrúar bætist svo við nýtt flug Wizz air til höfuð­borgar Aust­ur­ríkis. Á móti kemur að í vetur verður ekki áfram hægt að komast beint frá Íslandi til Prag, Tel Aviv, Miami, Aber­deen, Birmingham eða Vilnius.
Frá innan­lands­flug­völlunm þá býður Air Iceland Connect upp á flug til Nuuk og Kulusuk á Græn­landi frá Reykja­vík­ur­flug­velli og reglu­legar ferðir til Nerleriat Innat á Græn­landi í samvinnu við Norlandair á Akur­eyri. Í nóvember, desember og janúar færast ferð­irnar til Nuuk og Kulusuk til Kefla­vík­ur­flug­vallar.
Þess ber að geta í upptaln­ing­unni eru aðeins þeir áfanga­staðir sem flogið verður til í allan vetur eða stóran hluta hans. Jóla- og áramóta­flug og leiguflug á vegum ferða­skrif­stofa eru ekki tekin með. Dæmi um slíkar eru nýjar ferðir á vegum breska flug­fé­lagsins Jet2 í byrjun næsta árs en þeir sem ætla að nýta sér þær verða að hefja ferða­lagið í Bretlandi.

Með því að slá inn heiti borgar eða lands í línuna fyrir ofan má sjá hvaða flug­félög fljúga til þess áfanga­staðar.