Þær 59 borgir sem flogið verður til í vetur

Nokkrir nýir áfangastaðir bætast við úrvalið á Keflavíkurflugvelli í vetur en það detta líka nokkrir út.

Róm og Nýja Delí eru tvær af þeim borgum sem bætast við úrvalið á áfangastöðum á Keflavíkurflugvelli í vetur. Mynd: Christopher Czermak og Raghu Nayyar / Unsplash

Vetraráætlun flugfélaganna hefst í lok október og eins og staðan er núna þá verða í boði áætlunarferðir til 59 erlendra borga auk flugferða Air Iceland Connect til Akureyrar. Fyrravetur voru borgirnar 57 og úrvalið er því meira að þessu sinni og munar þar kannski mest um fyrsta flugið til Asíu því í desember fer WOW air jómfrúarferð sína til Nýju Delí í Indlandi. Auk þess verður í fyrsta sinn í vetur hægt að fljúga beint til Rómar og Mílanó á Ítalíu en ferðirnar þangað hafa takmarkast við sumarmánuðina. Auk þess verður í fyrsta sinn flogið til bandarísku borganna Detroit, St. Louis og Dallas. Í febrúar bætist svo við nýtt flug Wizz air til höfuðborgar Austurríkis. Á móti kemur að í vetur verður ekki áfram hægt að komast beint frá Íslandi til Prag, Tel Aviv, Miami, Aberdeen, Birmingham eða Vilnius.
Frá innanlandsflugvöllunm þá býður Air Iceland Connect upp á flug til Nuuk og Kulusuk á Grænlandi frá Reykjavíkurflugvelli og reglulegar ferðir til Nerleriat Innat á Grænlandi í samvinnu við Norlandair á Akureyri. Í nóvember, desember og janúar færast ferðirnar til Nuuk og Kulusuk til Keflavíkurflugvallar.
Þess ber að geta í upptalningunni eru aðeins þeir áfangastaðir sem flogið verður til í allan vetur eða stóran hluta hans. Jóla- og áramótaflug og leiguflug á vegum ferðaskrifstofa eru ekki tekin með. Dæmi um slíkar eru nýjar ferðir á vegum breska flugfélagsins Jet2 í byrjun næsta árs en þeir sem ætla að nýta sér þær verða að hefja ferðalagið í Bretlandi.

Með því að slá inn heiti borgar eða lands í línuna fyrir ofan má sjá hvaða flugfélög fljúga til þess áfangastaðar.