Var högg fyrir íslenska ferðaþjónustu

Airberlin skildi eftir sig stórt skarð í framboði á Íslandsflugi frá Þýskalandi. Umtalsverður samdráttur í komum þýskra ferðamanna til Íslands er ein af afleiðingunum.

Mynd: Airberlin

Á árunum fyrir hrun voru þotur erlendra flugfélaga sjáldséðar á Keflavíkurflugvelli. Hið þýska Airberlin var þó eitt þeirra sem hingað flugu og lengi vel var það umsvifamesta útlenda flugfélagið hér á landi. Þá bauð félagið upp á Íslandsflug frá nokkrum þýskum borgum yfir sumarmánuðina og tvisvar í viku frá Berlín og Dusseldorf yfir veturinn. Rekstur flugfélagsins var þó lengi vel í járnum og í lok síðasta sumars fóru stjórnendur þess fram á greiðslustöðvun. Gjaldþroti var svo lýst yfir í vetrarbyrjun og þá grípu forsvarsmenn Isavia til þess úrræðis að kyrrsetja eina af þotum Airberlin vegna vangoldinna flugvallagjalda.

Sú skuld fékkst greidd að lokum en segja má að hún hafi verið lítil sárabót fyrir þann mikla skaða sem íslensk ferðaþjónustu hlaut af falli Airberlin. Félagið var nefnilega mjög umsvifamikið og síðasta sumar flugu þotur félagsins 190 ferðir til Íslands samkvæmt talningu Túrista. Um borð voru sæti fyrir um 34 þúsund farþega og miðað við eðlilega sætanýtingu og lágt hlutfall íslenskra farþega má gera ráð fyrir að félagið hafi flutt hingað til lands að minnsta kosti 25 þúsund erlendra ferðamenn í fyrra. Þar hefur bróðurparturinn verið Þjóðverjar en þýskum ferðamönnum fækkaði hér á landi um nærri 18 þúsund í sumar samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Áhrifanna gætti ekki eins mikið fyrstu mánuði ársins enda sækja Þjóðverjar aðallega í Íslandsferðir yfir sumarið og því voru áætlunarferðir Airberlin fáar yfir vetrarmánuðina.

Fleiri ástæður

Það væri einföldun að skrifa allan þennan samdrátt á fall Airberlin. Forsvarsmenn Icelandair voru til að mynda snöggir til og hófu flug til Berlínar nánast um leið og rekstur Airberlin stöðvaðist. WOW air bætti líka við ferðum til höfuðborgarinnar. Aftur á móti fækkaði ferðum Icelandair til Munchen og Frankfurt á sama tíma. Það hafði líka neikvæð áhrif að stjórnendur Eurowings og Lufthansa settu Ísland ekki í forgang þegar þeir kepptust við að fylla þau skörð sem helsti keppinautur þeirra skildi eftir sig á þýska markaðnum.

Íslenskir ferðaskipuleggjendur hafa líka bent á að tillögur um hækkun virðisaukaskatts á íslenska ferðaþjónustu í fyrra hafi haft slæm áhrif á sölu Íslandsferða í ár þar sem erfitt var að verðleggja ferðirnar vegna óvissunnar sem áform ríkisstjórnarinnar ullu. Á sama tíma hafði krónan styrkst verulega.

Sumaráætlun næsta árs í vinnslu

Hvernig flugsamgöngum milli Íslands og Þýskalands verður háttað næsta sumar á eftir að koma í ljós. Forsvarsfólk Icelandair hefur talað um að leiðrétta þurfi það ójafnvægi sem var á leiðakerfi félagsins í sumar þar sem áherslan á Bandaríkin var of mikil. Hvernig Íslandsflugi Eurowings verður háttað í sumar liggur ekki fyrir samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu og sömu sögu er að segja af Lufthansa. Þotur þessa stærsta flugfélags Þýskalands fljúga hingað allt árið um kring frá Frankfurt og frá Munchen á sumrin.