Verða viðskipti með bréf Icelandair stöðvuð?

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur rokið upp í dag á meðan gengi annarra bréfa og íslensku krónunnar fer lækkandi.

Gengi Icelandair er á uppleið. Mynd: Icelandair

Fréttum af skuldabréfaútboði WOW air er nú beðið með óþreygju enda hafði Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi félagsins, gefið það út að niðurstöðu væri að vænta strax eftir síðustu helgi. Í morgun hafði fréttastofa RÚV það svo eftir Skúla að tilkynning um stöðuna myndi berast fyrir vikulok. Af gengi hlutabréfa í Icelandair, helsta samkeppnisaðila WOW air, að dæma þá veðja margir á fréttirnar sem Skúli muni færa síðar í þessari viku muni vera jákvæð tíðindi fyrir Icelandair.

Í dag hefur virði Icelandair rokið upp um 10 prósent í viðskiptum upp á um 450 milljónir króna. Á sama tíma lækkar gengi krónunnar og allra annarra fyrirtækja í kauphöllinni. Viðmælendur Túrista telja aðeins tímaspursmál þangað til að viðskipti með bréf Icelandair verði stöðvuð þar til að örlög WOW air komi í ljós.

Þess ber að geta að virði Icelandair hefur lækkað mjög hratt síðustu misseri og er gengið núna akkúrat helmingi lægra en það var fyrir ári síðan.