Samfélagsmiðlar

Viðkvæm staða í fluginu býður upp á verðstríð í vetur

Það er dýrara að reka flugfélag í dag en fyrir ári síðan en þrátt fyrir það er ekki víst að það muni koma fram í fargjöldunum á næstunni.

Farmiðaverðið í vetur gæti reynst neytendum hagstætt en eigendum flugfélaganna ekki.

Forsvarsmönnum WOW air tókst að selja skuldabréf fyrir rúma 6,4 milljarða í útboðinu sem farið hefur fram síðustu vikur. Í tilkynningu sem félagið sendi út í fyrradag segir að aukalega verði gefin út skuldabréf fyrir um 1,3 milljarð króna. Ekki liggur fyrir hvort þessi viðbót er í höfn eða ekki en stjórnendur WOW munu ekki ætla að tjá sig um útboðið að svo stöddu. Þar með fæst ekki heldur svar við því hvort söluvirði allra skuldabréfanna skili sér til WOW eða hvort hluta er haldið eftir, t.d. af kröfuhöfum. Og hvaða áhrif hefur það á framtíðarplön WOW að ekki seldust skuldabréf fyrir allt að 12 milljarða eins og upphaflega var lagt upp með.

Vissu lítið um WOW þar til í sumarlok

Hvað sem þeim vangaveltum líður þá er ljóst að starfsemi WOW er komin á flug á ný og óttinn við skyndilegt hrun í ferðaþjónustu hér á landi í haust er ástæðulaus. Það er þó engum blöðum um það að fletta að staða stjórnenda WOW er snúnari núna en oft áður. Útboðsgögnin fóru víða og nú þekkja samkeppnisaðilaranir félagið miklu betur. Þar til nú í sumarlok vissu stjórnendur Icelandair, Norwegian og Lufthansa nánast ekki neitt annað um fjárhag WOW air en að félagið hafði skilað 4,3 milljarða hagnaði árið 2016 og að sætanýtingin hækkaði í hverjum einasta mánuði. Í útboðsgögnum WOW birtast aftur á móti ítarlegar upplýsingar um reksturinn, tapið í fyrra og í ár og hvernig viðsnúningurinn á næsta ári á að nást.

Vonandi tekst að snúa við blaðinu og koma rekstrinum réttum megin við núllið. Það vona sennilega allir nema kannski þeir sem eiga í mestri samkeppni við WOW. Og það er ekki útilokað að núna, þegar viðkvæm staða WOW er opinber, að þá sjái stjórnendur annarra flugfélaga sér leik á borði. Einhverjir þeirra gætu hugsað með sér að það sé ódýrara að fara í verðstríð núna og tapa á farmiðunum tímabundið í stað þess að hækka fargjöldin í takt við hækkandi olíuverð og leyfa WOW að ná vopnum sínum á ný.

Gætu þolað tímabundið tap

Stjórnendur Icelandair hafa ítrekað sagt að þeir geri ráð fyrir hækkandi fargjöldum í ár. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir og það er ein helsta ástæða þess að afkoma félagsins hefur versnað til muna. Félagið á hins vegar sjóði og gæti þolað tap í einhvern tíma. Sérstaklega ef það væri liður í því að gera helsta samkeppnisaðilanum hér heima erfitt fyrir. Í Noregi hafa svo líklega stjórnendur Norwegian legið yfir upplýsingum um WOW og þeir gætu líka gert sér mat úr stöðunni. Fjárhagur norska flugfélagsins er þó ekki upp á marga fiska og þurftu eigendur þess að leggja því til aukið fjármagn í vor. Skrifast slæm staða félagsins einna helst á harða samkeppni í flugi milli Norður-Ameríku og Evrópu en Norwegian er það félag sem hefur bætt mestu við framboðið í flugi yfir Atlantshafið síðustu ár og það í nafni lágra fargjalda. Tekjurnar hafa hins vegar ekki dugað fyrir kostnaði. Félagið á engu að síður stóran flugflota og til stendur að selja elstu vélarnar til að koma fjárhagnum á réttan kjöl. Áfram er því útlit fyrir að Norwegian geti haldið farmiðaverðinu lágu og það gæti reynst íslensku félögunum erfitt. Sérstaklega WOW air þar sem fjárhagsstaða félagsins er veikari.

Það er heldur engum blöðum um það að fletta að það er almennt ódýrt að fljúga um þessar mundir. Fargjöld vetrarins eru til að mynda í mörgum tilfellum nokkru ódýrari en þau sem voru í boði verðkönnunum sem Túristi gerði á árunum 2011 til 2016. Og farmiðaverðið sem var fátítt þá er núna áberandi á bókunarsíðum flugfélaganna. Það ástand gæti varað miklu lengur alla vega á meðan staðan á markaðnum er svona brothætt.

Nýtt efni
Veitingaþjónusta

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar.  Heildartalan yfir þá sem …

Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í lok október og síðan þá hafa þotur Easyjet flogið þessa leið tvisvar í viku en engin talning fer fram á fjölda ferðamanna á Akureyrarflugvelli öfugt við það sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli. Til að meta fjölda breskra ferðamanna í beina fluginu þarf því að styðjast við gistináttatölur Hagstofunnar en …

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …