Von á fréttum af WOW

Skúli Mogensen segist vera nálægt því að klára sölu á skuldabréfum upp á nærri 6 milljarða króna. Hann gerir ráð fyrir að bæta við öðrum indverskum áfangastað áður en félagið verður skráð á hlutabréfamarkað.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: WOW air/Friðrik Örn Hjaltested

Útlit er fyrir að hinu umtalaða skuldabréfaútboði WOW air ljúki sitt hvoru megin við helgina. Þetta hefur Bloomberg fréttaveitan eftir  Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air, sem segist vera nálægt því að ná inn að lágmarki 50 milljónum dollara í útboðinu. Það jafngildir um 5,5 milljörðum íslenskra króna en upphaflega stóð til að safna 6 til 12 milljörðum króna samkvæmt því sem kom fram upphaflegri kynningu verðbréfafyrirtækisins Pareto á útboðinu.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá hefur forsendum skuldabréfaútboðsins verið breytt og nú fá þeir fjárfestar sem taka þátt kauprétt að hlutafé þegar félagið verður skráð á hlutabréfamarkað innan tveggja ára. Skúli segir ástæðuna fyrir þessum breytingum skrifast á þau viðbrögð sem skuldabréfaútgáfan hefur fengið hjá fjárfestum. Hann segist einnig halda þeim möguleika opnum að selja fjárfesti eða öðru flugfélagi hlut í félaginu.

Í lok árs hefur WOW air áætlunarflug til Nýju Delí í Indlandi. Einn annar áfangastaður þar í landi mun bætast við leiðakerfi flugfélagins áður en að félagið verður skráð á markað samkvæmt því sem segir í frétt Bloomberg. Skúli segist frekar horfa til skráningar í kauphöll í Skandinavíu frekar en í London eða New York.