WOW hefur náð lágmarkinu

Kaupendur eru komnir að skuldabréfum upp á að lágmarki 6,4 milljarða króna í útboði WOW air sem staðið hefur yfir síðastliðinn mánuð.

Mynd: WOW air

Skuldabréfaútboði WOW air lýkur formlega á þriðjudaginn en það hefur staðið yfir síðastliðinn mánuð. Safnast hefur sú lágmarksupphæð sem stefnt var að, þ.e. rúmir 6 milljarðar króna (50 milljónir evra). Þetta kemur fram í tilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér í dag. Þar segir jafnframt að bréfin verði til þriggja ára og beri 9 prósent vexti ofan á evrópska millibankavexti. Til samanburðar má geta þess að SAS gaf nýverið út skuldabréf fyrir tæpa 9 milljarða króna og vextirnir voru um 4,7%.

Í tilkynningunni segir jafnframt að ekki verði veitt nein viðtöl að svo stöddu og tilkynning verði send út í lok dags næstkomandi þriðjudag. Áfram verður því ýmsum spurningum ósvarað en sem fyrr segir þá hófst skuldabréfaútboð WOW air formlega fyrir mánuði síðan. Þá sagði Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi WOW, í viðtali við Fréttablaðið, að hann hefði fulla trú að að útboðið myndi klárast. Hver endanleg niðurstaða í útboðinu verður kemur í ljós á þriðjudag sem fyrr segir.