10 áhugaverðustu ferðamannaborgir næsta árs

Ferðaskríbentar Lonely Planet hafa birt lista sinn yfir þær borgir sem þeim þykja mest spennandi fyrir árið sem er næstum því handan við hornið.

Hin ljúfa stemning í Kaupmannahöfn heillar marga. Mynd: Maria Sattrup / Copenhagen Media Center

Þrátt fyrir að ferðabækur Lonely Planet seljist í minni upplögum en áður þá þykir það ennþá flott í ferðageiranum að komast á árlega topplista útgáfunnar. Og til marks um það þá hafa danskir fjölmiðlar síðustu daga sagt frá því að Kaupmannahöfn er að þessu sinni í efsta sæti á lista Lonely Planet yfir áhugaverðustu ferðamannaborgirnar árið 2019.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að hin svala danska höfuðborg sé óstöðvandi. Þar fái sælkerar gott að borða í öllum verðflokkum, heimsókn í Tívólí í febrúar sé heillandi og spennandi að skíða niður brekkuna sem liggur frá þaki nýju endurvinnslustöðvarinnar á Amager. Danska arkitektasafnið á líka skilið að fá meiri athygli og svo munar nú um það að um mitt næsta ár er ætlunin að leggja lokahönd á metrólínuna sem tengir saman borgina. Framkvæmdir við hana hafa nefnilega svo sannarlega reynt á þolrif borgarbúa síðustu ár.

Frá Keflavíkurflugvelli fljúga Icelandair, SAS og WOW air allt árið um kring til flugvallarins sem kenndur er við Kastrup. Og beint úr flugstöðvarbyggingunni er einmitt hægt að taka metró beint niður í bæ fyrir lítið og ferðalagið er örstutt. Aðeins ein önnur borg á topplista Lonely Planet tengist leiðakerfi Keflavíkurflugvallar og það er Seattle í Bandaríkjunum. Þangað fljúga þotur Icelandair eina til tvær ferðir á dag.

Toppborgir ársins 2019 að mati Lonely Planet.
  1. Kaupmannahöfn, Danmörk
  2. Shenzen, Kína
  3. Novi Sad, Serbía
  4. Miami, Bandaríkin
  5. Kathmandu, Nepal
  6. Mexíkó borg, Mexíkó
  7. Dakar, Senegal
  8. Seattle, Bandaríkin
  9. Zadar, Króatía
  10. Meknés, Marókkó

ÞESSU TENGT: 10 bestu ódýru hótelin í Kaupmannahöfn