10 bestu ferðamannalöndin 2019

Evrópa á tvo fulltrúa á lista Lonely Planet yfir þau lönd sem er áhugaverðast heim að sækja á næsta ári.

Sri Lanka toppar lista Lonely Planet yfir þau lönd sem áhugverðast er heima að sækja á næsta ári. Mynd: Marvin Meyer / Unsplash

Kaupmannahöfn toppar lista Lonely Planet yfir bestu ferðamannaborgir næsta árs og ánægjan í borginni með þetta val er mikil. Borgarstjórinn segist vonast til þetta verði til að ferðafólki fjölgi og þar með verði til fleiri störf. Og nú eru starfsmenn ferðamálaráðs Köben að leggja drög að kynningu á þessari vegsemd.

Það munu kollegar þeirra í Sri Lanka kannski líka gera því landið er í efsta sæti á topplista Lonely Planet yfir áhugaverðustu ferðamannalönd næsta árs. Segir í umsögn ferðaritsins að nú þegar friður ríki loks í landinu þá séu það ekki bara kjarkmiklir túristar sem leggja leið sína þangað heldur líka fjölskyldur, áhugafólk um náttúrutúrisma og jafnvel þeir sem vilja aðeins slaka á og hlaða batteríin. Og allir þessir hópar finna eitthvað fyrir sitt hæfi í öllum verðflokkum.

Í öðru sæti hjá Lonely Planet er svo eina landið á listanum sem flogið er til beint frá Íslandi og það er Þýskaland. Og reyndar er úrvalið mikið og næsta sumar verður hægt að fara upp í flugvél við Leifsstöð og fara svo frá borði í Berlín, Hamborg, Frankfurt, Dusseldorf, Bremen, Dresden, Munchen eða Nürnberg.

Áhugaverðustu ferðamannalöndin 2019 að mati Lonely Planet:

  1. Sri Lanka
  2. Þýskaland
  3. Zimbabwe
  4. Panama
  5. Kyrgystan
  6. Jórdanía
  7. Indónesía
  8. Hvíta Rússland
  9. Saó Tóme og Prinsípe
  10. Belize