1,7 milljarðs króna ábyrgð fellur ekki á Heimsferðir

Forstjóri ferðaskrifstofunnar segir fyrirtækið ekki lengur vera ábyrgt fyrir Primera air.

Ein af Airbus þotum Primera air. Mynd: London Stansted

Flugfélagið Primera air sem fór í gjaldþrot á mánudag var systurfélag Heimsferða sem er ein stærsta ferðaskrifstofa landsins. Bæði fyrirtækin tilheyra Primera Travel Group sem er í eigu Andra Más Ingólfssonar og nýttu Heimsferðir ferðir Primera air til að fljúga farþegum sínum til útlanda.

Rekstur systurfélaganna tengdist þó einnig með öðrum hætti því í ársreikningi Heimsferða fyrir árið 2017 kemur fram að á ferðaskrifstofunni hvíli sjálfsskuldarábyrgð vegna Primera Air upp á 1.670 milljónir. Ábyrgðin hefur farið hækkandi í bókum Heimsferða á milli ára því árið 2015 nam hún 480 milljónum og í lok 2016 var upphæðin komin upp í 857 milljónir. Um síðustu áramót hafði ábyrgðin því nærri tvöfaldast. Til samanburðar var velta Heimsferða á síðasta ári rétt um 3,9 milljarðar og hagnaðurinn 52 milljónir. Það gefur augaleið að róðurinn yrði þungur fyrir Heimsferðir ef upphæðin myndi falla á fyrirtækið nú í kjölfar gjaldþrots Primera air.

Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða, staðfestir hins vegar í svari til Túrista að ofannefnd ábyrgð sé ekki lengur fyrir hendi. Ekki fæst svar við því hvernig á því stendur. En að sögn Tómasar er fjárhagsstaða Heimsferða nokkuð góð en töluverð umræða hefur verið um fjárhag ferðaskrifstofa Primera Travel Group í Svíþjóð og Danmörku í kjölfar gjaldþrots Primera air. Þess má geta að í ársreikningi Heimsferða fyrir síðasta ár kemur jafnframt fram að á fyrirtækinu hvíli tryggingabréf að fjárhæð 555 milljónir með veði í fasteign, vörumerki og léni.

Líkt og áður hefur komið fram þá hafa Heimsferðir samið við tékkneska flugfélagið Travel service um flugferðir næstu misseri. Segir Tómas að flugin hafi hingað til gengið vel og líklegt sé að þeim verði haldið áfram á næsta ári. „Við erum að fara yfir flugtilboðin, sem við höfum fengið, þannig að það er stutt í það að við klárum samninga.“